Hefði fundist eðlilegt að Alfons fengi tækifæri

Birkir Már Sævarsson, til hægri, lék allar mínútur íslenska liðsins …
Birkir Már Sævarsson, til hægri, lék allar mínútur íslenska liðsins í nýliðnum landsleikjaglugga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alfons Sampsted, bakvörður Bodö/Glimt í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, var í leikmannahóp íslenska karlalandsliðsins sem mætti Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi í undankeppni HM 2022 í nýliðnum landsleikjaglugga.

Alfons fékk hins vegar ekki tækifæri í byrjunarliði íslenska liðinu og kom ekkert við sögu í leikjunum þremur.

Birkir Már Sævarsson, bakvörður Vals, lék alla þrjá leikina, alls 270 mínútu en hann lék sinn 101. landsleik í gær gegn Þýskalandi.

„Jú, ég viðurkenni það alveg að það pirraði mig en það þýðir ekkert að hugsa um það,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari Valsmanna, í samtali við fótbolta.net í dag þegar hann var spurður að því hvort spiltími Birkis í landsleikjaglugganum hefði farið í taugarnar á sér.

„Birkir Már hefur staðið sig frábærlega fyrir Val og íslenska landsliðið. Hann er, eins og menn vita og hlaupatölur sýna, mjög fit einstaklingur. Við þurfum að nota tímann fram að leiknum á laugardaginn og fara vel með hann.

„Ég set hins vegar spurningarmerki við það að Alfons Sampsted, sem er að spila í Bodö/Glimt og er hörku hægri bakvörður, mér hefði fundist eðlilegt að hann hefði fengið tækifærið," sagði Heimir í samtali við fótbolta.net.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert