Væri eins og við Sölvi hefðum skrifað handritið sjálfir

Sölvi Geir Ottesen og Kári Árnason munu báðir leggja skóna …
Sölvi Geir Ottesen og Kári Árnason munu báðir leggja skóna á hilluna að loknu tímabilinu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Kári Árnason, miðvörður Víkings úr Reykjavík, segir að það væri lyginni líkast takist liðinu að vinna tvöfalt á síðasta tímabili hans og félaga síns í vörninni, Sölva Geirs Ottesen fyrirliða.

Víkingur á enn möguleika á að vinna Íslandsmeistaratitilinn og er sömuleiðis komið í undanúrslit bikarkeppninnar, þar sem liðið mætir 1. deildarliði Vestra á Ísafirði.

„Ef þetta hefst hjá okkur þannig að við náum að landa báðum titlum þá er það fyrir mig og Sölva eins og við höfum bara skrifað handritið sjálfir. Mark Wahlberg leikur aðalhlutverkið.

Auðvitað er það stefnan en Íslandsmótið er ekki í okkar höndum og við verðum að treysta á FH og HK að hjálpa okkur með það,“ sagði Kári í samtali við mbl.is á föstudaginn þegar tilkynnt var að hann myndi leggja skóna á hilluna eftir yfirstandandi tímabil og taka þá við nýju starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá félaginu.

„En engu að síður verðum við að klára okkar og spila fagmannlega. Þetta eru fjórir úrslitaleikir sem eftir eru og ef við vinnum þá alla erum við í möguleika á að vinna tvöfalt. Það væri náttúrlega ákjósanleg niðurstaða og ég reyni að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að klára það,“ bætti hann við.

Víkingur heimsækir KR í næstsíðustu umferð úrvalsdeildarinnar klukkan 16.15 í dag. Leikurinn er í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert