Reynsluboltinn áfram í Garðabænum

Betsy Doon Hassett í leik með Stjörnunni í sumar.
Betsy Doon Hassett í leik með Stjörnunni í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Nýsjálenska miðjukonan Betsy Doon Hassett hefur skrifað undir nýjan samning við knattspyrnudeild Stjörnunnar og mun leik með kvennaliði félagsins næstu tvö árin.

Nýi samningurinn gildir því út keppnistímabilið 2023. Fótbolti.net greinir frá.

Hassett, sem er 31. árs gömul, hefur spilað hér á landi frá miðju sumri 2017 er hún gekk í raðir KR. Hún lék með Vesturbæingum út tímabilið 2019 og gekk að því loknu til liðs við Stjörnuna.

Hún hefur samtals leikið 69 deildarleiki í efstu deild hér á landi og skorað í þeim tíu mörk.

Þá er hún þaulreynd landsliðskona Nýja-Sjálands þar sem hún á 122 landsleiki að baki og hefur skorað 14 mörk. Lék hún til að mynda með liðinu á Ólympíuleikunum í Tókýó í Japan í sumar.

Ástralía og Nýja-Sjáland verða í sameiningu gestgjafar á næsta heimsmeistaramóti, sem fer fram sumarið 2023. Að öllu óbreyttu verður Hassett á mála hjá Stjörnunni þegar mótið fer fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert