Tek þessu af æðruleysi

Elín Metta Jensen hefur verið lykilkona í íslenska landsliðinu undanfarin …
Elín Metta Jensen hefur verið lykilkona í íslenska landsliðinu undanfarin ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elín Metta Jensen þurfti að draga sig úr íslenska landsliðshópnum í knattspyrnu sem mætir Tékklandi og Kýpur í undankeppni HM á Laugardalsvelli á næstu dögum.

Ísland mætir Tékklandi á morgun, 22. október, og Kýpur 26. október, en hún hefur verið lykilkona í liðinu undanfarin ár og á að baki 58 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað 16 mrök.

„Ég tognaði á liðbandi í hné í leik Vals og Tindastóls og það kom svo í ljós seinna meir að þetta var frekar slæm tognun,“ sagði Elín Metta í samtali við mbl.is.

„Ég er búin að vera í sjúkraþjálfun undanfarnar vikur en er ekki byrjuð að æfa fótbolta af neinu ráði. Það mun taka einhvern tíma að vinna upp fyrri styrk og það er eitthvað í að ég geti byrjað að beita mér aftur af fullum krafti.

Þetta gæti klárlega verið verra en þetta mun samt taka einhvern tíma. Ég þurfti ekki að gangast undir aðgerð eða neitt slíkt en ég þarf samt að fara varlega og passa mig að skaða liðbandið ekki ennþá meira með því að fara of geyst af stað,“ sagði Elín Metta.

Elín Metta skoraði ellefu mörk í úrvalsdeildinni á nýliðnu tímabili …
Elín Metta skoraði ellefu mörk í úrvalsdeildinni á nýliðnu tímabili þegar Valur varð Íslandsmeistari. mbl.is/Unnur Karen

Vonandi klár í næsta verkefni

Elín Metta var markahæsti leikmaður Íslands í undankeppni EM 2022 og ljóst að liðið mun sakna hennar í komandi verkefni.

„Þetta var algjör óheppni hvernig þetta atvikaðist. Það var aðeins stuggað við mér og ég steig eitthvað vitlaust niður. Það er alltaf leiðinlegt að missa af landsliðsverkefni enda fátt skemmtilegra en að hitta stelpurnar og æfa með þeim.

Það er alltaf góður hraði á æfingum hjá landsliðinu og það er auðvitað fyrst og fremst mikill heiður að vera valin í landsliðið. Á sama tíma tekur maður þessu af æðruleysi og þetta er bara verkefni sem maður þarf að leysa.“

Ísland mætir Kýpur ytra hinn 29. nóvember og vonast Elín Metta til þess að vera orðin heil heilsu í lok nóvember.  

„Sjúkraþjálfarinn minn talaði um að ég yrði frá í einhvern tíma en ég er byrjuð að lyfta og hlaupa aðeins. Ef allt stenst ætti þetta að ganga til baka á næstu vikum og vonandi verð ég klár í næsta verkefni með landsliðinu,“ bætti Elín Metta við í samtali við mbl.is.

mbl.is