Ansi lélegt

Jón Stefán Jónsson, þjálfari Þór/KA.
Jón Stefán Jónsson, þjálfari Þór/KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Jón Stefán Jónsson, þjálfari Þórs/KA, var ósáttur með sjálfan sig og þjálfarateymið í samtali við blaðamann mbl.is í leikslok eftir 1:4 tap liðsins gegn Þrótti í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í Laugardalnum í kvöld.

„Þetta var ansi lélegt hjá okkur í kvöld. Við litum út eins og við vissum ekki alveg hvað við værum að gera. Það er eitthvað sem við þjálfarnir þurfum að taka á okkur.

Það að vera komin 0:3 undir eftir 28 mínútum segir allt sem segja þarf. Við mættum bara óviss til leiks í kvöld. Það klikkar ansi margt. Það var engin pressa á boltamanninn og þá er auðvelt að setja hann í gegn.

Við erum ekki að skila okkur í réttar stöður. Það er bara gamla kilsjan, við hefðum þurft að vera ákveðnari í kvöld. En eins og ég sagði áðan þá þurfum við að taka hlut af þessu á okkur, við í þjálfarateyminu.

Við þurfum bara að kippa þessu í liðinn og það strax. Það er leikur strax á mánudaginn gegn ÍBV. Það er alltaf gaman að fara til Vestmannaeyjar og það er góður staður eins og reyndar allir aðrir staðir til að rífa sig upp,“ sagði Jón Stefán Jónsson að lokum en Þór/KA er í sjötta sæti deildarinnar með sex stig eftir fimm leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert