Aron Einar sá eini sem fellur undir viðbragðsáætlunina

Aron Einar Gunnarsson í landsleik síðasta sumar.
Aron Einar Gunnarsson í landsleik síðasta sumar. AFP

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sagði ekki hafa komið til greina að velja Aron Einar Gunnarsson í landsliðshópinn að þessu sinni þar sem hann falli undir nýja viðbragðsáætlun stjórnar KSÍ í vegna mála einstaklinga vegna meintra alvarlegra brota sem eru til meðferðar hjá rannsóknar- eða ákæruvaldi og/eða samskiptaráðgjafa.

„Ég er að sjálfsögðu búinn að tala við marga af þeim leikmönnum sem eru ekki í hópnum. Eins og þið hafið eflaust séð gaf KSÍ út fréttatilkynningu í dag um ákvörðun stjórnar og í rauninni er það fyrir mér, þannig lagað, léttir.

Ég er búinn að vera að kalla eftir ramma frá því í byrjun september í fyrra. Það hefur ekki verið neitt gaman fyrir mig eða fyrir ykkur sem fjölmiðlamenn að sigla nokkuð framhjá ákveðnum hlutum lengi.

Núna er þessi rammi nánast kominn og ég bara fagna því. Aron Einar fellur ennþá undir þessa ákvörðun stjórnar og ég sem þjálfari vinn bara eftir þeim vinnureglum sem eru gefnar út. Ég er bara mjög feginn að þetta sé að komast aftur í fastar skorður. Þá er hægt að svara spurningum ykkar hreint út,“ sagði Arnar Þór á fjölmiðlafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Spurður hvort Aron Einar væri eini leikmaðurinn sem ætti möguleika á að vera valinn í A-landsliðshópinn sem falli undir þessa nýju viðbragðsáætlun sagði Arnar Þór svo vera.

Ástæðan fyrir því er sú að þrátt fyrir að héraðssaksóknari hafi látið mál Arons Einars og Eggerts Gunnþórs Jónssonar, fyrrverandi landsliðsmanns, þar sem þeir voru kærðir fyrir hópnauðgun árið 2010, niður falla fyrr í mánuðinum hefur konan sem kærði þá ákveðið að kæra niðurstöðu héraðssaksóknar um niðurfellingu.

Því telst málinu samkvæmt skilgreiningum viðbragðsáætlunarinnar enn ekki endanlega lokið.

mbl.is