„Vilt aldrei spila svona leik sem leikmaður“

Jón Gísli Eyland bakvörður Skagamanna með boltann í leiknum í …
Jón Gísli Eyland bakvörður Skagamanna með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Arnór Sveinn Aðalsteinsson var fyrirliði KR í kvöld en hann lék sinn fyrsta leik í sumar þegar liðið gerði 3:3-jafntefli við ÍA í stórskemmtilegum leik í Bestu deild karla í knattspyrnu eftir að hafa verið að glíma við hælmeiðsli.

„Það var mikið fjör í þessum leik og ég held að þetta hafi verið skemmtilegur leikur. Þú vilt einhvern veginn aldrei spila svona leik sem leikmaður. Þú vilt alltaf halda hreinu, skora nokkur mörk og hafa þetta svolítið öruggt.

Ég held að þetta hafi verið skemmtilegt fyrir áhorfandann en við þurfum svona aðeins að gera nokkra grunnhluti betur finnst mér. Staðsetningar varnarlega og þegar við erum með boltann varnarlega. Við hleyptum þeim kannski í of margar góðar skyndisóknir. Það eru svona hlutir sem við þurfum að líta yfir,“ sagði Arnór Sveinn í samtali við mbl.is eftir leik.

Spurður út í líðan sína eftir sinn fyrsta leik í sumar sagði hann:

„Líkaminn er bara mjög góður. Ég er búinn að vera í miklu basli með hælinn á mér og sinina þar á bak við, það er svona minn akkilesarhæll í sumar! En tilfinningin er góð og ég fann mikið þakklæti að fá að komast á völlinn aftur og mér finnst þetta ótrúlega gaman.

Að vera í þessum hóp eru algjör forréttindi. Ég tók það svolítið með mér. Svo nýtir maður alltaf tímann líkamlega til að gera eitthvað annað og mér finnst ég vera í standi. Ég þarf núna að ná mér alveg, bæði í leikform og að ná fætinum alveg 100 prósent og þá er þetta bara upp á við myndi ég segja.“

Reyna að finna lausnir á genginu á heimavelli

KR hefur það sem af er tímabili gengið illa að knýja fram sigra á heimavelli, vandamál sem gerði einnig vart við sig á síðasta tímabili. Hvað veldur?

„Við erum búnir að setjast svolítið yfir þetta og við höfum verið að ná í rosalega fá stig, allt of fá stig á heimavelli, á KR-velli. Völlurinn okkar sem á að vera þetta vígi og hefur verið það í gegnum tíðina.

Ég get í rauninni ekki svarað því en við erum búnir að setjast yfir það og erum að reyna að finna lausnir á því og ætlum að gera það,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert