Tek ég hatt minn ofan fyrir honum

Höskuldur Gunnlaugsson
Höskuldur Gunnlaugsson mbl.is/Óttar Geirsson

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, var skiljanlega svekktur eftir 2:3-tapið fyrir Val í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld. Valsmenn skoruðu sigurmarkið í uppbótartíma eftir að Breiðabliki tókst að jafna í 2:2, eftir að vera 0:2 undir í hálfleik.

„Þetta voru soft mörk sem við fengum á okkur í fyrri hálfleik en heilt yfir var spilamennskan góð. Það var flott hjá okkur að koma til baka í seinni hálfleik því það er ekkert grín að koma til baka á móti skipulögðu og góðu varnarliði Vals. Við sýndum hugrekki í stöðunni 2:2, þá vorum við að reyna. Ég er ánægður með frammistöðuna,“ sagði Höskuldur við mbl.is eftir leik.

„Í fyrra markinu töpum við boltanum, erum framarlega og Aron klárar þetta vel. Ef þetta var svo sending frá Arnóri tek ég hatt minn ofan fyrir honum, því þetta var frábær sending. Í seinni hálfleik var spilið okkar flott og við vorum beittari í teignum þeirra,“ bætti hann við.

Breiðablik var að tapa sínum fyrstu stigum í deildinni í sumar en Höskuldur hefur ekki miklar áhyggjur af því.

„Það breytir engu. Við höfum tapað áður og svarað vel. Við tökum það með okkur í næsta leik. Við höfum verið með lappirnar niðri á jörðinni allan tímann og ekki að pæla í neinum öðrum en sjálfum okkur. Þetta er langt mót og við vitum í hverju við erum góðir. Við vitum hvað hefur komið okkur á toppinn og við verðum að halda því áfram,“ sagði Höskuldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert