„Hefði verið rosalega auðvelt að fara á taugum í lokin“

Óskar Hrafn Þorvaldsson kátur á hliðarlínunni í kvöld.
Óskar Hrafn Þorvaldsson kátur á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

Óskar Hrafn Þorvaldsson var sáttur með 3:2-sigur Breiðabliks á ÍA á Akranesvelli í kvöld í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu.

„Auðvitað er maður glaður að komast áfram í bikarnum og ég er mjög ánægður með fyrri hálfleikinn, ég er ekki eins ánægður með það hvernig við komum út í þann seinni.

Við hleypum Skagamönnum inn í seinni hálfleik og vel gert hjá þeim að gera það að komast aftur inn í leikinn en ég hefði viljað sjá okkur hafa aðeins meiri stjórn á fyrri hluta seinni hálfleiks en svo sýnum við styrk og trú og menn fóru ekki á taugum, það hefði verið rosalega auðvelt að fara á taugum í lokin á þessum leik og sjá einhverja framlengingu fyrir sér en mér fannst við ná að halda áfram sem er styrkur og virkilega vel gert hjá mínum mönnum að klára þetta,“ sagði Óskar Hrafn í samtali við mbl.is eftir leik.

Jason Daði Svanþórsson var ekki með í kvöld vegna meiðsla en Óskar Hrafn sagði að það væru bara lítilsháttar ökklameiðsli.

„Hann meiddist á ökkla á æfingu í gær og við ákváðum að taka enga sénsa með hann.“

Hann sagði að líklega verði engar breytingar á Breiðabliks-liðinu þegar félagsakiptaglugginn opnar þann 1. júlí næstkomandi. Óskar Hrafn sagði samt sem áður að á morgun sé nýr dagur og að allt geti gerst.

„Nei ekki eins og staðan er í dag, þá er enginn að koma og enginn að fara en hvað gerist á morgun eða hinn þá bara verður það að koma í ljós, en akkúrat núna er ekkert að gerast,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is