Valið á Aroni Einari harðlega gagnrýnt

Aron Einar Gunnarsson er mættur aftur í íslenska karlalandsliðið.
Aron Einar Gunnarsson er mættur aftur í íslenska karlalandsliðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðgerðahópurinn Öfgar hefur sent frá sér yfirlýsingu eftir að landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson var valinn í íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu á nýjan leik í dag.

Aron Einar var valinn í hópinn í fyrsta sinn í 15 mánuði eftir að Rík­is­sak­sókn­ari felldi á dög­un­um niður mál þar  sem Aroni Ein­ari og Eggerti Gunnþóri Jóns­syni var gefið að sök að hafa nauðgað konu í Kaup­manna­höfn árið 2010.

„Við sjáum núna skýra afstöðu karlalandsliðsins og landsliðsþjálfara og okkur finnst þá sanngjarnt að velta hér upp siðferðiskennd þeirra,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Öfga.

Af hverju trúa þeir ekki þolendum? Af hverju skiptir fótboltaframi og góður árangur í fótbolta meira máli en að trúa og standa með þolendum? Hvað með þá innan liðsins sem vilja ekkert með ofbeldi hafa, þeir hljóta að vera einhverjir?

Hvernig áhrif mun þetta hafa á móralinn? Er mórallinn ekki líka einhvers virði? Ætlum við virkilega að sýna ungum iðkendum sem dreymir um að spila fyrir landsliðið að Aron Einar, sem kærður var fyrir hópnauðgun, sé fyrirmynd? Hvaða skilaboð sendir það?“ segir einnig í yfirlýsingunni.

Aðgerðahópurinn Öfgar.
Aðgerðahópurinn Öfgar. Ljósmynd/Öfgar

Yfirlýsing Öfga í heild sinni:

Í ljósi þess að Aron Einar hefur verið valinn aftur í landsliðið. 

Fólk veltir því fyrir sér hvaða áhrif þetta hefur á baráttuna. Þetta hefur í fyrsta lagi áhrif á þolendur og þannig hefur þetta áhrif á okkur en þetta hefur engin sérstök áhrif á baráttuna. 

Baráttan rís ekki og fellur með fótboltamönnum. Aron Einar er bara enn einn meinti nauðgarinn sem kemst upp með það í skjóli forréttinda af því hann stundar tuðruspark. 

Þetta kemur okkur ekkert á óvart, við vorum búnar að búa okkur undir þetta. Við höldum bara áfram okkar striki, og ef eitthvað er þá kyndir þetta undir eldmóð okkar enda mikil staðfesting á öllu sem við höfum sagt síðustu 15 mánuði og viljum berjast gegn. Þetta undirstrikar að mannorðsmorð eru ekki til, slaufunarmenning á einungis við þolendur og fólk getur því hætt að öskra ,,á að taka menn af lífi án dóms og laga”. 

Það er ekki slaufun að taka pásu í nokkrar vikur eða mánuði og koma síðan til baka án þess að þurfa svo mikið sem að líta í eigin barm eða axla ábyrgð. 

Þetta staðfestir bara að við erum komin stutt og að á baráttunni sé þörf. Þetta staðfestir orð okkar um að lífsviðurværi karla liggur ekki undir þó þeir séu sakaðir um ofbeldi. Þetta staðfestir að nauðgunarmenning þrífst innan KSÍ og að þolendum er ekki trúað.

Við sjáum núna skýra afstöðu karlalandsliðsins og landsliðsþjálfara og okkur finnst þá sanngjarnt að velta hér upp siðferðiskennd þeirra. Af hverju trúa þeir ekki þolendum? Af hverju skiptir fótboltaframi og góður árangur í fótbolta meira máli en að trúa og standa með þolendum? Hvað með þá innan liðsins sem vilja ekkert með ofbeldi hafa, þeir hljóta að vera einhverjir? Hvernig áhrif mun þetta hafa á móralinn? Er mórallinn ekki líka einhvers virði? 

Ætlum við virklega að sýna ungum iðkendum sem dreymir um að spila fyrir landsliðið að Aron Einar, sem kærður var fyrir hópnauðgun, sé fyrirmynd? Hvaða skilaboð sendir það? 

Þessi ákvörðun mun fæla aðra þolendur frá því að skila skömminni og leita réttar síns. Þetta mun vekja upp efasemdir þess efnis að KSÍ standi með þolendum. Það er ennþá langt í land að jafna kynjahallann innan KSÍ og þessi ákvörðun hjálpar ekki að kvenkyns iðkendur upplifi öryggi innan félagsins þegar staðreyndin er sú að flestir þolendur eru konur. Konur innan hreyfingarinnar eiga rétt á því að vera séðar og að á þær hlustað sem og þolendur í heild sinni. 

Þetta er stærsta æskulýðsstofnun landsins. Forgangsröðunin ætti að vera önnur, þar sem öryggi og rödd þolenda ætti að vega hærra en að moka inn peningum frá FIFA út á velgengni meintra ofbeldismanna. Af hverju er liðinu og þjálfaranum meira annt um að vernda orðspor lúins Aron Einars á kostnað þolanda?

KSÍ segist standa með þolendum, sýnið það þá í verki. Hér er tilvalið tækifæri fyrir KSÍ að móta reglur varðandi endurkomu og endurhæfingu. Fyrsta skrefið á þó alltaf að vera að meintur gerandi viðurkenni brot sín, biðjist afsökunar og bæti sig. Fyrirmyndir unga fólksins okkar á að sýna samfélagslega ábyrgð. 

Við þurfum sérstaklega betri reglugerð utan um niðurfelld mál þar sem við vitum að niðurfelling er ekki það sama og sakleysi. Munum að einungis lág prósenta mála er byggð á röngum sökum, svo lág að við getum gefið okkur að 95-99% mála séu sönn. Munum að þrátt fyrir þá tölfræði eru flest mál felld niður og því endurspeglar réttarkerfið á engan hátt sakleysi meintra gerenda. Að mál séu niðurfelld þýðir ekki að meintir gerendur séu saklausir. Það þýðir einungis að ekki hafi verið hægt að sanna sekt meints geranda fyrir dómstólum. Niðurfelling er ekki sýknun. Niðurfelling er ekki efi á því sem gerðist, niðurfelling þýðir ekki að við eigum ekki að trúa þolendum. Sönnunarbyrði í nauðgunarmálum er mjög þung og því er mjög algengt að mál eru felld niður, kynferðisbrot fara fram á bakvið luktar dyr þar sem sjaldan eru vitni. En réttarkerfið okkar vegur orð meintra gerenda alltaf þyngra en orð þeirra sem brotið er á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert