Þeir verða ógeðslega leiðinlegir

Kolbeinn Þórðarson átti fínan leik í dag.
Kolbeinn Þórðarson átti fínan leik í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér fannst við fá á okkur tvö ódýr mörk. Það var einbeitingaleysi, sérstaklega í fyrsta markinu. Við áttum að gera miklu betur í því,“ sagði Kolbeinn Þórðarson, miðjumaður íslenska U21 árs landsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir 1:2-tap fyrir Tékklandi í fyrri leik liðanna í umspili um sæti á lokamóti Evrópumótsins.

„Það er samt allt opið fyrir seinni leikinn. Við vorum að spila við hörkulið en við erum hörkulið sjálfir. Við þurfum að gefa aðeins meira í og skapa fleiri færi,“ sagði hann og hélt áfram:

„Þetta var járn í járn leikur. Mér fannst við byrja vel og vera með yfirhöndina þangað til við skorum. Eftir það færðumst við aftar og þeir tóku aðeins yfir leikinn.

Í seinni hálfleik fannst mér við lengi í gang. Þetta var samt alltaf leikur sem var að fara að ráðast á einu marki. Við hefðum mátt gera betur á síðasta þriðjungi, en ég er stoltur af liðinu. Við sýndum fína frammistöðu og eigum nóg inni úti.“

Kolbeinn á von á erfiðum leik á útivelli í krefjandi aðstæðum, þar sem tékkneska liðið mun væntanlega verja forskotið sem það náði í á Víkingsvelli í dag.

„Þetta er lið frá Austur-Evrópu og þeir kunna að tefja og gera allt til að loka markinu sínu. Það verður stórt próf fyrir okkur. Við lentum í þannig aðstæðum á móti Grikklandi og Kýpur úti. Þetta verður drulluerfiður leikur og þeir verða ógeðslega leiðinlegir. Við þurfum bara að halda haus,“ sagði Kolbeinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert