Breiðablik Íslandsmeistari eftir sigur Stjörnunnar

Ari Sigurpálsson sækir að Garðbæingum í kvöld.
Ari Sigurpálsson sækir að Garðbæingum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik er Íslandsmeistari karla í knattspyrnu árið 2022, í annað sinn í sögunni. Þetta kom í ljós eftir 2:1-sigur Stjörnunnar á Víkingi í Garðabæ í Bestu deildinni í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var virkilega fjörugur en bæði lið fengu klárlega færi til að skora. Víkingur var meira með boltann og fékk betri færi en Stjarnan ógnaði með skyndisóknum. Ari Sigurpálsson fékk líklega besta færi fyrri hálfleiks en Haraldur Björnsson lokaði þá virkilega vel gegn honum úr teignum eftir afskaplega gott spil Víkings. Logi Tómasson, Danijel Dejan Djuric og Pablo Punyed fengu einnig færi til að skora en Björn Berg Bryde skallaði skot þess síðastnefnda í burtu af marklínu. Þrátt fyrir mikið fjör var staðan markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Í seinni hálfleik bætti svo bara í fjörið. Eftir korters leik fékk Karl Friðleifur Gunnarsson boltann hægra megin í teig Stjörnunnar. Karl virtist reyna að setja boltann fyrir markið en sendingin fór af varnarmanni og skrúfaðist í boga í stöngina fjær og inn. Viktor Reynir Oddgeirsson, varamarkmaður Stjörnunnar, kom engum vörnum við en hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik í kvöld þegar hann kom inn á fyrir Harald sem meiddist.

Stjörnumenn voru þó ekki lengi að svara. Einungis þremur mínútum síðar missti Viktor Örlygur Andrason boltann á stórhættulegum stað sem varð til þess að Kjartan Már Kjartansson fann Óskar Örn Hauksson í teignum, sem kláraði vel úr góðu færi.

Tæpum tíu mínútum síðar fékk Stjarnan aukaspyrnu við vítateigshornið vinstra megin. Jóhann Árni Gunnarsson tók spyrnuna og fann kollinn á reynsluboltanum Daníel Laxdal sem sneiddi boltann glæsilega í netið. 

Fleiri urðu mörkin ekki og Stjarnan sigldi því mögnuðum sigri í höfn og gerði um leið nágrönnum sínum í Breiðabliki risastóran greiða.

Víkingur er áfram í 2. sæti deildarinnar með 46 stig, líkt og KA. Stjarnan er í fimmta sæti með 34 stig, eins og KR. 

Stjarnan 2:1 Víkingur R. opna loka
90. mín. Birnir Snær Ingason (Víkingur R.) á skot sem er varið Eini maður Víkinga með lífsmarki á skot úr teignum sem Viktor ver í horn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert