Vanda brast í grát í miðju viðtali í Katar

Vanda Sigurgeirsdóttir er stödd í Katar þessa dagana.
Vanda Sigurgeirsdóttir er stödd í Katar þessa dagana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, brast í grát þegar hún ræddi gagnrýni Dagnýjar Brynjarsdóttur landsliðskonu í garð sambandsins í samtali við RÚV í Katar í dag.

Vanda er stödd í Katar ásamt Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra sambandsins, og Jörundi Áka Sveinssyni, yfirmanni knattspyrnusviðs, en þau voru öll viðstödd upphafsleik mótsins í Al Khor í gær þar sem Ekvador vann 2:0-sigur gegn Katar.

Formaðurinn hefur legið undir gagnrýni undanfarnar vikur fyrir að ræða ekki við fjölmiðla um þau mál sem hafa komið upp hjá sambandinu og ber þar hæst að nefna vináttulandsleik Íslands og Sádi-Arabíu og svo gagnrýni landsliðskvennanna.

Ræddi við Dagnýju og Glódísi

„Ég hef rætt við bæði Dagnýju Brynjarsdóttur og Glódísi Perlu Viggósdóttur og við áttum gott samtal,“ sagði Vanda í samtali við Eddu Sif Pálsdóttur hjá RÚV.

„Þessi umræða stakk mig því ég var tíu ára gömul þegar ég byrjaði mína jafnréttisbaráttu því ég vildi vera í stuttbuxum eins og strákarnir en ekki í leikfimisbol,“ sagði Vanda sem brast svo stuttu síðar í grát.

„Ég get ekki einu sinni talað um þetta,“ sagði Vanda svo en hún fór yfir víðan völl í viðtalinu og ræddi meðal annars þá miklu gagnrýni sem bæði hún og KSÍ hefur legið undir.

Viðtalið við Vöndu í heild sinni má sjá með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert