KA sækir tvo leikmenn til Stafangurs

Kristoffer Forgaard Paulsen og Ingimar Torbjörnsson Stöle eru gengnir til …
Kristoffer Forgaard Paulsen og Ingimar Torbjörnsson Stöle eru gengnir til liðs við KA. Ljósmynd/KA

Knattspyrnudeild KA hefur samið við tvo unga leikmenn, Ingimar Torbjörnsson Stöle og Kristoffer Forgaard Paulsen, sem koma báðir frá Viking í Stafangri í Noregi.

Ingimar, sem er hálfur Íslendingur og hálfur Norðmaður, skrifaði undir þriggja ára samning við KA en Kristoffer kemur að láni.

Ingimar varð 19 ára á dögunum og leikur sem kantmaður, en hann hefur verið viðloðandi yngri landslið Íslands undanfarin ár og meðal annars leikið tvo leiki fyrir U19-ára landsliðið.

Hann hóf ferilinn hjá Fjölni en hélt utan til Viking árið 2020 þar sem hann hefur leikið síðan.

Kristoffer er hávaxinn miðvörður sem fagnar 19 ára afmæli sínu í dag. Hann skrifaði undir lánssamning sem gildir út komandi tímabil.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Kristoffer leikið fyrir aðallið Viking bæði í norsku úrvalsdeildinni sem og í norsku bikarkeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert