Agla María skoraði fjögur í Skagafirði

Agla María Albertsdóttir skoraði fjögur.
Agla María Albertsdóttir skoraði fjögur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik vann 8:0-stórsigur á Tindastóli í Lengjubikar kvenna í fótbolta á Sauðárkróki í dag. Landsliðskonan Agla María Albertsdóttir var í miklu stuði hjá Breiðabliki og skoraði fjögur mörk.

Andrea Rut Bjarnadóttir, Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Taylor Ziemer komust einnig á blað og eitt markanna var sjálfsmark.

Í Mosfellsbænum hafði Stjarnan betur gegn Aftureldingu, 2:1. Andrea Mist Pálsdóttir og Gyða Kristín Guðmundsdóttir komu Stjörnunni í 2:0, áður en Sigrún Eva Sigurðardóttir svaraði fyrir Aftureldingu.

Í Keflavík hafði ÍBV betur gegn Keflavík, 2:0. Kristín Erna Sigurlásdóttir og Selma Björt Sigursveinsdóttir gerðu mörk Eyjakvenna.

Stjarnan er efst í riðli 2 með sex stig og Breiðablik, ÍBV og Keflavík eru með þrjú. Afturelding og Tindastóll eru án stiga.

Þór/KA gerði góða ferð í Vesturbæinn og vann 3:1-útisigur á KR í riðli 1. KR komst yfir með sjálfsmarki á 12. mínútu en þær Krista Dís Kristinsdóttir, Amalía Árnadóttir og Una Móeiður Hlynsdóttir svöruðu fyrir norðankonur.

Þór/KA hefur unnið báða leiki sína til þessa en KR tapað sínum tveimur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert