Breiðablik meistari meistaranna 2023

Breiðablik er meistari meistaranna 2023.
Breiðablik er meistari meistaranna 2023. mbl.is/Arnþór

Íslandsmeistarar Breiðabliks eru meistarar meistaranna í karlaflokki í fótbolta eftir 3:2-sigur á bikarmeisturum Víkings úr Reykjavík á Kópavogsvelli í kvöld.

Breiðablik var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og fór verðskuldað með tveggja marka forskot í búningsklefann í hálfleik.

Davíð Örn Atlason og Eyþór Aron Wöhler í baráttunni í …
Davíð Örn Atlason og Eyþór Aron Wöhler í baráttunni í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Gísli Eyjólfsson skoraði fyrsta mark leiksins á 14. mínútu er hann kláraði mjög vel í teignum eftir góðan undirbúning hjá Færeyingnum Patrik Johannesen. Patrik kom til Breiðabliks frá Keflavík fyrir leiktíðina.

Sá færeyski sá sjálfur um að gera annað markið á 36. mínútu er hann kláraði vel í teignum eftir fyrirgjöf frá Viktori Karli Einarssyni.

Leikmenn Breiðabliks taka við gullverðlaunum í kvöld.
Leikmenn Breiðabliks taka við gullverðlaunum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Víkingum gekk illa að reyna á Anton Ara Einarsson í marki Breiðabliks í fyrri hálfleik og var staðan því 2:0 þegar Erlendur Eiríksson flautaði til hálfleiks.

Gestunum úr Fossvogi gekk sömuleiðis illa að skapa sér færi í seinni hálfleik á meðan leikmenn Breiðabliks virtust sáttir við stöðuna. Var því lítið um góð marktækifæri í hálfleiknum, sem hentaði Breiðabliki mjög vel.

Arnór Borg Guðjohnsen sækir að Damir Muminovic.
Arnór Borg Guðjohnsen sækir að Damir Muminovic. mbl.is/Arnþór Birkisson

Viktor Karl átti þó fast skot á 64. mínútu en boltinn fór nokkuð beint á Þór Ingason, varamarkvörð Víkinga, sem kom inn á fyrir meiddan Ingvar Jónsson um miðjan fyrri hálfleik.

Leikurinn breyttist á 77. mínútu þegar Víkingar fengu víti. Erlendur dómari mat það sem svo að Anton Ari í marki Breiðabliks hefði verið á eftir Danijel Djuric í boltann í teignum og slegið Víkinginn í höfuðið. Varamaðurinn Nikolaj Hansen fór á punktinn, skoraði af öryggi og minnkaði muninn í 2:1.

Oliver Ekroth og Gísli Eyjólfsson í baráttunni.
Oliver Ekroth og Gísli Eyjólfsson í baráttunni. mbl.is/Arnþór Birkisson

Aðeins fjórum mínútum síðar var komið að Breiðabliki að fá víti, þegar Oliver Ekroth tók Patrik Johannesen niður innan teigs. Höskuldur Gunnlaugsson tók vítið, skoraði með sannfærandi hætti og kom Breiðabliki aftur tveimur mörkum yfir.

Nikolaj Hansen skoraði sitt annað mark og annað mark Víkings í uppbótartíma með skalla af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf frá Loga Tómassyni frá vinstri.

Það reyndist hins vegar of lítið og of seint fyrir bikarmeistarana og Íslandsmeistarar Breiðabliks fögnuðu sigri. 

Breiðablik 3:2 Víkingur R. opna loka
90. mín. Leik lokið Breiðablik er meistari meistaranna árið 2023 eftir fjörlegan leik!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert