Svo byrja þeir að brjóta grimmt

Halldór Smári í eldlínunni í kvöld.
Halldór Smári í eldlínunni í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við vorum eftir á,“ sagði Halldór Smári Sigurðsson, fyrirliði Víkings úr Reykjavík, í samtali við mbl.is eftir 2:3-tap liðsins fyrir Breiðabliki í Meistarakeppni KSÍ á Kópavogsvelli í kvöld.

Sigurinn var verðskuldaður hjá Breiðabliki, en Halldór var ekki sérlega sáttur við spilamennsku síns liðs, þrátt fyrir flott fyrsta kortér.

„Við vorum flottir fyrstu 15 mínúturnar, vorum að spila boltanum vel og þeir komust ekki nálægt okkur. Svo byrja þeir að brjóta grimmt og þá koðnum við niður. Þeir koma sér inn í leikinn og halda þetta út, þótt við höfum átt fína kafla inn á milli,“ útskýrði varnarmaðurinn.

Leikmenn Breiðabliks gerðust oft brotlegir í fyrri hálfleik, en Halldór sagði Víkingana ekki vilja hefna fyrir brotin, heldur gera betur í einvígum.

„Maður vill ekki vera í einhverjum hefndarbrotum og dúndra menn viljandi niður. Við vildum hins vegar vera nær þeim og vinna þessa 50/50-bolta, sérstaklega á okkar eigin vallarhelmingi.“

Alls litu tíu spjöld dagsins ljós, með þjálfurum meðtöldum. Leikurinn var þó ekki grófur, þrátt fyrir hita á milli leikmanna.

„Það er dálítið mikið, en ég held það sé líka skemmtilegt að það sé hiti. Þetta var ekki deildarleikur, en þetta skiptir máli. Þegar þessi lið mætast vilja þau vinna hvort annað. Þetta var bara gaman.“

Víkingur byrjar Bestu deildina á leik við Stjörnuna á útivelli næstkomandi mánudag. „Við þurfum að fara yfir þennan leik og leggja hann svo til hliðar. Við tökum það góða með í leikinn gegn Stjörnunni og bætum það sem við þurfum að gera betur,“ sagði Halldór Smári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert