Miklu skemmtilegra þegar það er hiti

Leikmenn Breiðabliks fagna marki í kvöld. Arnór er hæstánægður, lengst …
Leikmenn Breiðabliks fagna marki í kvöld. Arnór er hæstánægður, lengst til hægri. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Mér fannst þetta verðskuldað,“ sagði miðvörðurinn Arnór Sveinn Aðalsteinsson, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 3:2-sigur liðsins á Víkingi úr Reykjavík í Meistarakeppni KSÍ á Kópavogsvelli í kvöld.

„Við vorum að mæta rosalega góðu liði, en við sýndum gott vinnuframlag og mikla ákefð. Við vorum með grunngildin algjörlega í lagi og við erum stoltir af því. Vegna þess áttum við þennan sigur skilið.“

„Við erum búnir að æfa gríðarlega vel og höfum haldið í góðan anda. Mönnum líður vel og menn hafa gaman að því að taka á því. Ég er mjög sáttur við hvar liðið er statt, bæði líkamlega og andlega,“ bætti Arnór við.

Þrátt fyrir að leikurinn hafi ekki verið grófur, litu tíu gul spjöld dagsins ljós, þar af eitt spjald hvort á þjálfarateymi liðanna.

„Maður finnur að um leið og það er aðeins meira undir að þá er hiti. Þá er þetta miklu skemmtilegra og skemmtilegra fyrir áhorfendur. Þetta var ekki grófur leikur, heldur meira hiti í mönnum.

Ég var ánægður með að það var virðing, þótt menn væru að taka á því. Leikurinn var því ekki grófur. Við eigum von á góðu sumri. Þetta er fallegi leikurinn, fótbolti. Það bíða allir spenntir eftir að deildin byrji,“ sagði Arnór.

Arnór skipti úr KR og yfir til Breiðabliks fyrir tímabilið. Hann er uppalinn hjá Blikum og varð meistari með liðinu árið 2010. Hann lék fyrst með Breiðabliki til ársins 2011 og svo aftur á árunum 2014 til 2017. Hann gekk þá í raðir KR og hafði leikið með KR-ingum, þar til nú.

„Það sakar ekki að byrja vel. Ég er mjög ánægður með þetta skref sem ég tók. Mér hefur fundist þetta vera rétt ákvörðun eftir að ég tók hana. Ég finn það eftir að ég kom inn í klefann og byrjaði að æfa.

Ég átti erfitt með að yfirgefa KR, þjálfarana og liðsfélagana. Eftir að ég skipti líður mér hins vegar virkilega vel og þetta var rétt ákvörðun. Ég er ánægður með að hafa byrjað á að vinna bikar,“ sagði Arnór.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert