Pálmi gæti spilað með uppeldisfélaginu í sumar

Pálmi Rafn Pálmason lék með KR eftir atvinnumennskuna í Noregi.
Pálmi Rafn Pálmason lék með KR eftir atvinnumennskuna í Noregi. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Pálmi Rafn Pálmason, einn reyndasti knattspyrnumaður landsins, gæti tekið skóna af hillunni með vorinu og leikið með uppeldisfélaginu, Völsungi á Húsavík, í 2. deildinni.

Pálmi tilkynnti eftir síðasta tímabil með KR að hann væri hættur en hann hafði þá leikið í 23 ár í meistaraflokki heima og erlendis. Hann er níundi leikjahæsti íslenski knattspyrnumaðurinn í deildakeppni frá upphafi með 303 leiki á Íslands og 166 í Noregi.

Hann gekk í dag frá félagaskiptum úr KR yfir í Völsung.

„Ég er ekki enn þá búinn að taka skóna niður en ég hef alla vega möguleika á að hjálpa móðurklúbbnum. En það er enn alveg óvíst hvort ég geri það og hvað ég næ að spila marga leiki," sagði Pálmi Rafn við mbl.is í dag.

Pálmi hóf ferilinn með Völsungi og lék með meistaraflokki félagsins frá 15 ára aldri en eftir þrjú ár þar lék hann með KA, Val, Stabæk, Lilleström og síðan KR á löngum og farsælum ferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert