Blikar í annað sætið eftir sigur á Val

Damir Muminovic og Adam Ægir Pálsson í baráttu um boltann …
Damir Muminovic og Adam Ægir Pálsson í baráttu um boltann á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik er komið í annað sætið í Bestu deild karla í fótbolta eftir sigur á Valsmönnum á Kópavogsvelli í kvöld, 1:0.

Blikar eru með 21 stig eftir sjötta sigurinn í röð, sex stigum á eftir Víkingum sem unnu KA fyrr í kvöld. Valsmenn sitja eftir með 18 stig í þriðja sætinu.

Blikar byrjuðu af miklum krafti því eftir 25 sekúndur lá boltinn í marki Valsmanna eftir glæsilegt skot Viktors Karls Einarssonar en því miður fyrir Kópavogsliðið var hann dæmdur rangstæður.

Þetta gaf ekki tóninn að því sem koma skyldi því fyrri hálfleikurinn bauð ekki upp á mörg marktækifæri. Blikar sóttu mun meira en komust ekki í opin færi. Höskuldur Gunnlaugsson komst næst því að skora þegar hann skaut rétt yfir Valsmarkið úr aukaspyrnu á 34. mínútu.

Valsmenn fengu hins vegar tvö færi í fyrri hálfleiknum. Eftir misheppnað spil Blika út frá marki á 19. mínútu skaut Hlynur Freyr Karlsson yfir mark þeirra af 20 metra færi.

Undir lok hálfleiksins fékk Andri Rúnar Bjarnason sendingu í gegnum miðja vörnina. Aðþrengdur náði hann skoti en Anton Ari Einarsson markvörður Blika kom vel út á móti og varði frá honum.

Það var eina skot hálfleiksins sem hitti á mark. Mikið var um brot og aukaspyrnur, sérstaklega um miðbik hálfleiksins þar sem flæði leiksins var lítið.

En seinni hálfleikur byrjaði betur, alla vega fyrir Blika. Á 49. mínútu sendi Jason Daði Svanþórsson boltann fyrir Valsmarkið frá hægri, boltinn fór af varnarmanni og inn að stönginni fjær þar sem Stefán Ingi Sigurðarson renndi sér á hann, 1:0.

Gísli Eyjólfsson miðjumaður Breiðabliks með boltann í leiknum í kvöld.
Gísli Eyjólfsson miðjumaður Breiðabliks með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Grétarsson þjálfari Vals gerði sóknarsinnaðar skiptingar í kjölfarið þar sem Tryggvi Hrafn Haraldsson og Guðmundur Andri Tryggvason komu báðir til leiks hjá Val.

Það hafði þó ekki mikil áhrif og Valsmönnum gekk ekkert að skapa sér færi á meðan Blikar voru vel skipulagðir, gáfu lítil færi á sér og voru mun hættulegri í sínum hröðu sóknum.

Hólmar Örn Eyjólfsson og Patrick Pedersen komu til leiks hjá Val á lokakafla leiksins og spiluðu sinn fyrsta leik á tímabilinu.

Í sjö mínútna uppbótartíma náðu Valsmenn þungri sókn og engu munaði að Damir Muminovic skoraði sjálfsmark. Hann sendi boltann framhjá Antoni Ara markverði en var eldsnöggur að átta sig og náði honum sjálfur áður en hann fór yfir marklínuna.

En Blikar sigldu heim frekar sanngjörnum sigri, þeim sjötta í röð. Þeir eru komnir á skrið.

M-gjöfin fyrir leikinn og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Breiðablik 1:0 Valur opna loka
90. mín. 7 mínútum bætt við
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert