Erum ekki farnar að skjálfa í hnjánum

Sandra María Jessen í barátunni við Elísu Viðarsdóttur í kvöld.
Sandra María Jessen í barátunni við Elísu Viðarsdóttur í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við fengum klárlega færi til að skora líka, en við komum honum ekki inn,“ sagði Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, í samtali við mbl.is eftir 0:1-tap liðsins gegn Val í Bestu deild kvenna í fótbolta í kvöld.

„Valur hélt vel í boltann á meðan við vorum þéttar og reyndum að nýta þá möguleika sem opnast þegar við vinnum hann og sækjum hratt. Því miður tókst það ekki í dag, en við vorum að gera margt fínt í þessum leik og við getum tekið margt jákvætt úr þessu.“

„Mér fannst við aðeins betri og þær sýndu ekki alveg hvað í þeim býr. Þær eru með mikið af flottum leikmönnum og eiga enn margt inni, en þær unnu og þær gerðu því eitthvað vel,“ sagði Sandra um leikinn.

Þór/KA hefur nú tapað fjórum leikjum í röð í deild og bikar en Sandra er langt frá því að vera farin að örvænta.

„Það eru góðir fasar og slæmir fasar í þessu. Við erum ekkert farnar að skjálfa í hnjánum. Við erum alveg rólegar og vitum að sigurinn kemur. Það er bara einn leikur í einu og við einbeitum okkur á Selfossleikinn núna. Það er ekkert stress fyrir norðan,“ sagði hún.

Þór/KA hefur unnið þrjá leiki í deildinni í sumar og þeirra á meðal leiki gegn Stjörnunni og Breiðabliki. Verr gengur gegn liðum sem spáð var verra gengi.

„Kannski líður okkur vel þegar andstæðingurinn er með boltann. Við erum alltaf að bæta það að vera með boltann. Við höfum tekið skref fram á við frá því í fyrra. Liðið er að þroskast og leikmenn eru að fá reynslu.

Það kemur með tímanum að okkur líður betur með boltann. Við höldum áfram að vaxa og tökum fleiri stig af liðum sem við eigum að taka stig á móti. Við höfum enn fulla trú á þessu,“ sagði Sandra.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert