Jú, jú, boltinn endaði inni

Birgir Baldvinsson með boltann í hörðum slag úti við hornfána …
Birgir Baldvinsson með boltann í hörðum slag úti við hornfána í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Birgir Baldvinsson er að stimpla sig inn í lið KA og hann var á skotskónum í dag þegar KA vann Grindavík 2:1 í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar.

Leikið var á Akureyri og eftir urmul færa hjá KA í fyrri hálfleik náði Birgir að skora rétt fyrir hálfleiks flautið. Grindavík jafnaði leikinn í seinni hálfleik en sigurmark KA kom svo skömmu fyrir leikslok.

Birgir, þetta var erfiður leikur.

„Í rauninni er ég bara sáttur með að vinna leikinn. Við ætlum okkur alla leið í bikarkeppninni og þetta var bara skref í þá átt. Ég er bara mjög ánægður.“

Þú skoraðir fyrra mark KA. Þeir félagar þínir framar á vellinum gátu það ekki svo bakvörðurinn tók sig bara til.

„Boltinn datt bara vel fyrir mig. Ég þurfti nú bara lítið að gera og jú, jú boltinn endaði inni“ sagði Birgir og reyndi að gera sem minnst úr þessu öllu saman.

Margir hefðu nú bara þrumað boltanum í rassinn á næsta varnarmanni en þú náðir að halda boltanum niðri. Þetta var vel afgreitt.

„Þetta var bara allt í lagi mark“ sagði Birgir þá.

Nú er einn leikur eftir í þeirri miklu törn sem hefur verið frá því að Íslandsmótið hófst. Mér telst til að þið séuð búnir að spila 14 leiki nú þegar. Það er Fylkir á heimavelli í Bestu-deildinni. Þið hafið verið gagnrýndir fyrir slælega spilamennsku á köflum. Hvernig ætlið þið að mæta í þann leik?

„Bara eins og inn í þennan leik, bara dúndurvitlausir. Við viljum svara fyrir síðasta leik og ætlum að mæta af fullum krafti í leikinn. Mér finnst við þurfa að tengja saman sigurleiki og eigum helling inni. Ég ef engar áhyggjur af okkur.“

Það kemur svo tveggja vikna hlé í deildinni eftir Fylkisleikinn. Hvað ætlið þið að gera í þessu hléi?

„Ætli við verðum ekki bara að æfa eitthvað og spila golf og svona. Það verður vonandi hægt að slaka eitthvað á og safna kröftum. Við verðum bara ferskir og klárir þegar mótið byrjar aftur“ sagði Birgir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert