Íslensk lið gera þetta ekki á hverjum degi

Oliver Stefánsson, Davíð Ingvarsson og Oliver Sigurjónsson í baráttunni á …
Oliver Stefánsson, Davíð Ingvarsson og Oliver Sigurjónsson í baráttunni á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks kvaðst ánægður með frammistöðu liðsins í kvöld þegar það vann stórsigur á Tre Penne, 7:1, í undanúrslitum forkeppni Meistaradeildar karla í fótbolta á Kópavogsvellinum.

„Ég held að ég geti ekki annað en verið sáttur. Auðvitað vissi maður fyrir leikinn að við hefðum öllu að tapa og lítið sem ekkert að vinna, í ljósi þess hvar þetta lið er statt. En við vissum samt að þeir væru meistarar San Marínó, nýbúnir að vinna deildina og búnir að styrkja liðið um sex leikmenn, þannig að við renndum að vissu leyti blint í sjóinn," sagði Óskar Hrafn við mbl.is eftir leikinn.

„En mér fannst liðið stærstan hluta leiksins spila mjög fagmannlega. Mér fannst reyndar seinni hálfleikurinn töluvert betri en sá fyrri, að hluta til vegna þess að við færðum boltann hraðar og vorum beinskeyttari en við vorum í fyrri hálfleik þegar við vorum dálítið flatir. 

Að hluta til líka vegna þess að þeir fóru að þreytast og misstu aðeins móðinn, en það þarf að klára svona leiki og það má ekki missa ákefðina og græðgina og dugnaðinn. Um leið og það dettur niður verður erfiðara að ná því aftur upp í næsta leik.

Ég er því ánægður með hvernig við enduðum leikinn og ég sagði við strákana áðan að það að vinna 7:1 í Evrópuleik, alveg sama hver andstæðingurinn er, er ekki eitthvað sem íslensk lið gera á hverjum degi. Þetta er alla vega félagsmet Breiðabliks og við erum ánægðir með þetta, þessi sigur er miði að úrslitaleiknum sem við stefndum að því að spila og nú er það okkar að klára það verkefni.“

Og þú þekkir heldur betur mótherjana, Buducnost frá Svartfjallalandi, eftir tvo hörkuleiki við þá í fyrra. Sástu þá í leiknum við Andorraliðið í dag?

„Já, ég sá þá í dag og hef fylgst vel með þeim í vetur. Það lá fyrir snemma, í raun strax í haust, að við myndum fara í svona riðil með meisturum Svartfjallalands, og að öllum líkindum yrði það Buducnost. Við erum því búnir að fylgjast mjög vel með þessari deild, það voru tvö lið sem börðust um titilinn í allan vetur og voru jöfn að stigum í lokin."

Er liðið eitthvað breytt frá því í fyrra?

„Buducnost sem við slógum út í fyrra er ekki sama Buducnost í ár. Þeir eru orðnir töluvert líkamlega sterkari, þeir eru kraftmeiri, öflugri, en ekki jafn beinskeyttir og í fyrra. Þá voru þeir með mjög öfluga kantmenn, Djukanovic og Mijovic, þeir voru seldir síðasta haust, annar til Hammarby og hinn til Lommel.

Í staðinn eru komnir heldur stærri leikmenn, þeir eru komnir með Brasilíumann, og þetta eru allt menn yfir 1,90 á hæð og hörkutól. Ég myndi halda að það verði mjög erfitt að spila á móti þeim. Ég sé ekki fyrir mér að þeir muni pressa okkur mikið, heldur muni þeir verða óhemju sterkir í föstum leikatriðum.

Þetta er hörkulið og vel skipulagt, og væntanlega gírað inn á að gera okkur erfitt fyrir, þannig að við búumst við mjög erfiðum leik. En ég er sannfærður um að við erum í betra formi en þeir.

Svo náðum við að rúlla liðinu okkar ágætlega í leiknum í kvöld og gefa leikmönnum dýrmætar mínútur, og öðrum dýrmæta hvíld, þannig að mér líður eins og að orkustigið okkar eigi að vera hærra þegar kemur í leikinn á föstudaginn og við þurfum bara að sjá til þess að það sé til staðar. Að við séum kraftmiklir, að við séum orkumiklir, og að við séum grimmir og klárir í að hlaupa meiri en þeir því gæðin í liðinu okkar eru augljós.

Við erum fínir í fótbolta en bestir þegar krafturinn er mikill, þegar varnarleikurinn fremst er öflugur, og þegar við erum grimmir í návígjum. Þá fylgir sóknarleikurinn með. Ef þetta helst í hendur hef ég engar áhyggjur en þetta verður mjög erfiður leikur.“

Eru allir heilir og í standi fyrir föstudagsleikinn?

„Já, það eru allir heilir nema Patrik. Jason Daði er að koma inn í þetta hægt og bítandi, hann var í sprautu í síðustu viku og er ekki í toppformi. Sama með Kidda Steindórs, þeir eru ekki klárir í heilan leik, en heilt yfir erum við í góðum gír," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert