Gamla ljósmyndin: Fékk rauða spjaldið fyrir prúðmennsku

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Skagamaðurinn Karl Þórðarson var á árum áður í hópi flinkustu knattspyrnumanna landsins. Hann var afar skemmtilegur leikmaður og þótti um leið prúður á velli. 

Í lokaumferð Íslandsmótsins árið 1990 var Karl á meðal reyndustu leikmanna deildarinnar og hafði varla fengið spjald á ferlinum. FH og ÍA léku þá í Kaplakrika og ráku áhorfendur og leikmenn upp stór augu þegar hinn þrautreyndi alþjóðadómari Guðmundur Haraldsson spjaldaði Karl á lokamínútu leiksins. 

Karl varð undrandi, maldaði lítillega í móinn og spurði fyrir hvað hann fengi gula spjaldið. Ekki minnkaði undrun viðstaddra þegar Guðmundur dró þá fram rauða spjaldið. 

Guðmundur tjáði Karli þá að hann væri ekki að sýna Karli spjöldin heldur gefa honum þau og flautaði skömmu síðar til leiksloka. 

Guðmundur sagði um uppátækið í íþróttablaði Morgunblaðsins 18. september 1990 að hann hefði gert þetta því Karl hefði ávallt verið til fyrirmyndar þegar Guðmundur dæmdi leiki hjá honum. 

„Á gula spjaldið hafði Guðmundur ritað: Karl Þórðarson. Loksins náði ég þér. Kveðja Guðmundur Haraldsson. Og á rauða spjaldið: Þakka drengilega keppni í gegnum tíðina. Kveðja Guðmundur Haraldsson,“ stóð ennfremur í frétt Morgunblaðsins. 

Á meðfylgjandi mynd er Karl að leika sér með knöttinn í leik ÍA og Vals í efstu deild Íslandsmótsins á Akranesi sumarið 1984. Á myndinni sjást einnig Valsararnir Þorgrímur Þráinsson og Bergþór Magnússon og Skagamaðurinn Hörður Jóhannesson. Myndina tók Júlíus Sigurjónsson sem myndaði árum saman fyrir Morgunblaðið og mbl.is. Glöggir lesendur koma ef til auga á sjálfa Svörtu Maríu í baksýn. 

Leikurinn gegn Val var sá fyrsti hjá Karli á Íslandi í sex ár en hann hafði farið í atvinnumennskuna árið 1978. Um haustið 1984 fagnaði ÍA tvöldum sigri annað árið í röð með sigri á Íslandsmótinu og í bikarkeppninni.

Karl lék fyrst með ÍA 1972 og fram til 1978. Hann lék einnig með ÍA 1984, 1985, 1987-1991 og varð jafnframt Íslandsmeistari með ÍA 1994 þá 39 ára gamall. Þess á milli tók hann sér hvíld frá boltanum. Erlendis lék Karl með La Louviere í efstu deild í Belgíu og með Laval í efstu deild í Frakklandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert