Gamla ljósmyndin: Þekkt nöfn í 2. deild

Morgunblaðið/Sigurgeir Jónasson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.  

Þessi dagskrárliður fór í loftið á mbl.is fyrir fjórum árum eða í lok mars árið 2020. Fyrsta myndin var af Alberti Guðmundssyni fyrsta atvinnumanni þjóðarinnar í knattspyrnu. 

Birtar hafa verið myndir eftir marga ljósmyndara sem komið hafa við sögu á Morgunblaðinu og mbl.is og mörgu af þekktasta íþróttafólki landsins hefur brugðið fyrir á myndunum. Til þessa hafa myndirnar eða fólkið á myndunum tengst eftirtöldum íþróttagreinum: Knattspyrnu, frjálsum, handknattleik, fimleikum, sundi, júdó, körfuknattleik, tennis, golfi, borðtennis, badminton, alpagreinum skíðaíþrótta, hestaíþróttum, kraftlyftingum, rallý, blaki, snóker, siglingum og hjólreiðum. 

Meðfylgjandi mynd var tekin af Sigurgeiri Jónassyni í Vestmannaeyjum á níunda áratugnum. Sigurgeir myndaði fyrir Morgunblaðið í liðlega sextíu ár og er á nítugasta aldursári. 

Þarna eigast við Þór í Vestmannaeyjum og Breiðablik í 2. deild karla en liðin voru í baráttunni um að komast upp í efstu deild. 

Á myndinni eru leikmenn sem áttu eftir að setja mikinn svip á íþróttina hérlendis, ekki síst í þjálfun. Theodór Guðfinnsson leikmaður Breiðabliks er að brjótast í gegn og kominn í skotstöðu en samherji hans Kristján Halldórsson fylgist grannt með. 

Í vörninni eru frá vinstri Þorbergur Aðalsteinsson, Gylfi Birgisson og Ragnar Hilmarsson. 

Theodór og Kristján þjálfuðu báðir kvennalandsliðið á tíunda áratugnum og Þorbergur Aðalsteinsson karlalandsliðið. Ragnar var aðstoðarþjálfari ÍBV þegar liðið vann frækinn sigur í bikarkeppninni árið 1991 (þjálfarinn Sigurður Gunnarsson lék einnig með liðinu.) 

Theodór þjálfaði sterk lið Vals og Víkings um tíma og Kristján stýrði einu sterkasta kvennaliði í Evrópu á þeim tíma, Larvik í Noregi. Þorbergur er einn þeirra leikmanna sem léku undir stjórn Bogdans bæði hjá Víkingi og í landsliðinu eins og handboltaunnendur þekkja. Hann þjálfaði Saab í Svíþjóð um tíma. Gylfi Birgisson lék um tíma í Noregi og varð bikarmeistari með bæði Stjörnunni og ÍBV. 

Umspil um sæti í efstu deildum karla og kvenna stendur nú yfir í handboltanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert