Gamla ljósmyndin: Bæjarstjórinn

Morgunblaðið/Kristinn

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Í seinni tíð er Gunnar Einarsson þekktastur fyrir að vera bæjarstjóri í Garðabæ. Ef til vill vita færri að hann þjálfaði karlalið Stjörnunnar í handknattleik um margra ára skeið. Var hann þá á sama tíma íþrótta- og tómstundafulltrúi í Garðabæ. Ef til vill vita enn færri að Gunnar var atvinnumaður í handknattleik í Þýskalandi á árunum 1975-1980 og lék þar lengst af með Göppingen. 

Gunnar gerði Stjörnuna að bikarmeisturum árið 1989 en hann þjálfaði einnig unglingalandslið Íslands um tíma. Gunnar kom víðar við í íþróttahreyfingunni og var formaður Fimleikasambandsins í fjögur ár. 

Margir efnilegir Garðbæingar skiluðu sér upp í Stjörnuliðið þegar Gunnar þjálfaði liðið og hér ræðir hann við einn þeirra í leik gegn FH í janúar árið 1993. Leikmaðurinn með þetta þykka og fallega hár (númer 6) er Patrekur Jóhannesson sem nú stýrir einmitt liði Stjörnunnar. 

Patrekur fetaði í fótspor þjálfarans og var lengi atvinnumaður í Þýskalandi.  

Myndina tók Kristinn Ingvarsson sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi. Leikurinn fór fram í Ásgarði í Garðabæ og hafði Stjarnan betur, 26:25. Skoraði Patrekur sigurmarkið á lokasekúndunni og Stjarnan var í efsta sæti deildarinnar.

Liðið er þó enn á höttunum eftir sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í handknattleik í karlaflokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert