Gamla ljósmyndin: Brautryðjandinn

Íþróttadeild mbl.is og Morgunblaðsins kynnir til leiks nýjan dagskrárlið þar sem grúskað verður í myndasafni Morgunblaðsins og mbl.is 

Reglulega verða birtar myndir úr íþróttasögunni af kunnu íslensku íþróttafólki og/eða eftirminnilegum íþróttaviðburðum á mbl.is. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá Albert Guðmundsson, fyrsta atvinnumann okkar Íslendinga og fyrrverandi formann KSÍ, leika sér með knöttinn í jakkafötum og spariskóm. Myndin er tekin í Reykjavík af Ólafi K. Magnússyni þegar Albert var í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar árið 1980. 

Albert brá á leik með knöttinn á stéttinni eins og sjá má en sagt var um Albert þegar hann var upp á sitt besta að hann hefði getað gert nánast hvað sem er við knöttinn nema láta hann tala!

Albert er einnig fyrsti Íslendingurinn sem lék í efstu deild í Englandi. Var það áður en hann gerðist atvinnumaður í Frakklandi. Albert lék tvo deildaleiki með Arsenal í október 1946. Fleiri urðu þeir ekki þar sem enska félagið fékk ekki atvinnuleyfi fyrir hann en hann spilaði þó nokkra vináttuleiki með liðinu.

Albert samdi við Nancy sumarið 1947 og gerðist þá atvinnumaður. Sem áhugamaður hafði hann leikið fyrir Val, Rangers og Arsenal. Albert lék með Nancy, AC Milan, Racing Club Paris og Nice sem atvinnumaður. Hann varð því fyrstur Íslendinga til að spila bæði á Frakklandi og Ítalíu. Hann lauk ferlinum með ÍBH, sameiginlegu liði FH og Hauka, sem spilandi þjálfari. 

Albert tók þátt í fyrsta opinbera landsleiknum árið 1946 gegn Dönum á Melavellinum. Hann skoraði fyrstu tvö landsliðsmörk Íslands gegn Noregi á Melavellinum 1947 en Noregur vann 4:2. 

Afkomendur Alberts í þrjá ættliði hafa leikið A-landsleiki fyrir Íslands hönd í knattspyrnu: Ingi Björn Albertsson — Kristbjörg Ingadóttir — Albert Guðmundsson.

Albert var tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ hinn 20. apríl 2013. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert