Búa til hræðslu

Höskuldur Gunnlaugsson í baráttunni á Kópavogsvelli í kvöld.
Höskuldur Gunnlaugsson í baráttunni á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vissum frá fyrri leik okkar við þá í Árbænum að þeir selja sig dýrt svo það var lykilatriði að hafa þolinmæðina og treysta á að með ákefð og yfirvegun myndu Fylkismenn þreytast og skrefin þyngjast  og mér fannst það skapa sigurinn,  fagmannlega gert hjá okkur,“  sagði Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks eftir 5:1 sigur á Fylki í Kópavoginum í kvöld þegar leikið var í Bestu deild karla í fótbolta. 

„Okkur fannst líka gott að vinna stórt, fá þannig Kópavogsvígið í gang og það eru margir heimaleikir eftir svo við vitum að vélin fer nú að malla og gott betur en það.  Ég er sérstaklega ánægður með að þegar leikurinn var í raun unninn þá hættu men ekki, voru hungraðir í meira og spila þar til dómarinn flautar.   Gott líka að bæta markatöluna okkar í deildinni en líka að búa til hræðslu við að mæta okkur á þessum velli.“

Eftir góða frammistöðu Breiðabliks í Evrópukeppninni með tilheyrandi álagi er ekki að heyra á fyrirliðanum að það trufli leikmenn. 

„Mér fannst við þátttaka okkar í Evrópukeppni ekki trufla okkur neitt, heldur var góður taktur í okkar leik og við vorum einbeittir.  Liðið er mikið breytt og þeir sem hafa spilað minna í sumar voru fáránlega góðir í dag og eiga mikið hrós skilið því það er ekkert grín að stíga inn í alvöru leik eftir hafa ekki spilað hvern einasta leik svo ég hrikalega sáttur, það er ekkert flóknara en það,“  sagði Höskuldur fyrirliði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert