Naumur sigur Belganna á Blikum

Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks með boltann í kvöld.
Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks með boltann í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Belgíska liðið Gent vann nauman sigur á Breiðabliki, 3:2, í B-riðli Sambandsdeildar karla í fótbolta á Laugardalsvellinum í kvöld en litlu munaði að Blikarnir kræktu þar í sitt fyrsta stig í keppninni.

Nígeríumaðurinn Gift Orban reyndist Blikum erfiður og skoraði öll þrjú mörk þeirra en Jason Daði Svanþórsson skoraði bæði mörk Blika á tveimur mínútum í fyrri hálfleik og kom þeim þá í 2:1.

Gent er þá komið með 10 stig eftir fjóra leiki, Maccabi Tel Aviv vann Zorya 3:1 í Póllandi og er með 6 stig, Zorya er með 4 stig en Blikar eru áfram án stiga. Maccabi og Zorya eiga eftir að leika leik sinn úr þriðju umferðinni.

Eftir ágæta byrjun Blikanna sem pressuðu Belgana framarlega frá byrjun komst Gent yfir strax á 6. mínútu. Pieter Gerkens sendi boltann inn í vítateiginn þar sem Gift Orban stakk sér inn fyrir og skallaði laglega upp undir þverslána og í netið, 0:1.

Tvö mörk á tveimur mínútum

En á 16. mínútu jöfnuðu Blikar. Gísli Eyjólfsson fékk boltann rétt innan vítateigs, aðeins til vinstri, lék til hliðar og skaut. Boltinn fór af varnarmanni og inn í markteiginn hægra megin þar sem Jason Daði Svanþórsson var mættur og renndi boltanum í netið, 1:1.

Og eftir langa skoðun VAR-dómara á markinu voru Blikar fljótir að fylgja þessu eftir. Á 18 mínútu lék Gísli upp miðjan völlinn og skaut föstu skoti af 20 metra færi. Paul Nardi markvörður varði en hélt ekki boltanum og Jason Daði var snöggur að átta sig og sendi hann í tómt markið, 2:1.

Belgarnir voru lengi að jafna sig á þessu og náðu ekki að ógna marki Blikanna í góðan tíma eftir mörkin. Þeir sóttu hins vegar stíft síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks. Omri Gandelman átti skot í þverslána og yfir á 38. mínútu og rétt á eftir átti Gift Orban hörkuskot úr miðjum vítateig rétt yfir Blikamarkið.

En Blikar stóðu þessa pressu af sér og fóru með forystu inn í leikhléið, 2:1.

Blikarnir sköpuðu sér hættulegt færi strax á 49. mínútu. Viktor Karl Einarsson átti þá góða sendingu frá hægri þvert í gegnum markteiginn þar sem engu munaði að Davíð Ingvarsson næði að renna sér í boltann. Blikar töldu að brotið hefði verið á honum og þeir hefðu átt að fá vítaspyrnu.

Það tók Gent hins vegar aðeins níu mínútur að jafna metin í síðari hálfleik. Eftir aukaspyrnu frá hægri var dæmd vítaspyrna á Andra Rafn Yeoman fyrir að halda leikmanni Gent og dómarinn benti strax á punktinn. Gift Orban tók spyrnuna og skoraði af öryggi, 2:2.

Belgarnir komust síðan yfir á 69. mínútu Tarik Tissoudali fékk góða sendingu innfyrir vörnina og var einn gegn Antoni Ara í vítateignum, renndi boltanum til hliðar á Orban sem fullkomnaði þrennuna og staðan 2:3.

Fengu færi til að jafna metin

Blikar fengu færi til að jafna metin á 80. mínútu þegar Jason Daði átti fyrirgjöf frá hægri og Kristinn Steindórsson skallaði á markið af vinstra markteigshorni. Paul Tardi þurfti að hafa vel fyrir því að verja í horn.

Blikar sóttu af talsverðum krafti á lokamínútunum og á 89 mínútu átti Gísli hættulegt skot frá vítateig, í varnarmann og hárfínt framhjá stönginni vinstra megin.

Höskuldur Gunnlaugsson var enn nær því að jafna á 90. mínútu þegar hann átti hörkuskot sem Nardi varði vel með því að slá boltann frá.

Blikar fengu síðan aukaspyrnu rúma 20 metra frá marki þegar Höskuldur var felldur í uppbótartímanum. Fyrirliðinn skaut sjálfur að marki en Nardi varði örugglega og þar með var sigur Belganna í höfn.

Blikarnir gátu hins vegar gengið stoltir af velli eftir að hafa staðið vel í sterku liði frá fyrstu mínútu til síðustu á Laugardalsvellinum. Úrslitin þýða að möguleikar Blika á að ná öðru sætinu í riðlinum eru endanlega úr sögunni.

Þeir eiga hins vegar enn eftir tvo leiki, heimaleik gegn Maccabi Tel Aviv og útileik gegn Zorya Luhansk, 30. nóvember og 14. desember.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Breiðablik 2:3 Gent opna loka
90. mín. Höskuldur Gunnlaugsson (Breiðablik) á skot sem er varið Hörkuskot rétt innan vítateigs og Nardi þarf að kasta sér til að slá boltann frá! Þetta var nálægt!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert