Eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert

Damir Mumnovic í hörðum skallaslag í vítateig Gent í leiknum …
Damir Mumnovic í hörðum skallaslag í vítateig Gent í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum nálægt þessu en þeir sýndu kannski sín gæði í lokin og unnu leikinn. Þetta er svekkjandi," sagði Damir Muminovic, varnarmaður Breiðabliks, eftir nauman ósigur gegn Gent, 2:3, á Laugardalsvellinum í Sambandsdeild karla í fótbolta í kvöld.

„Þetta var allt annar og öðruvísi leikur en fyrri leikurinn gegn þeim í Belgíu," sagði Damir við mbl.is eftir leikinn en Gent vann þann leik 5:0 og hafði talsverða yfirburði.

„Við spiluðum betri varnarleik en síðast á móti þeim. Við vildum hins vegar sækja þegar við fengum boltann og við fengu svo sannarlega færin til að skora fleiri mörk. Ég er mjög stoltur af frammistöðunni í dag," sagði Damir.

Gent komst yfir strax á 6. mínútu með frekar ódýru en laglegu skallamarki frá Gift Orban sem skoraði öll þrjú mörk Gent.

„Við áttum að stoppa þetta, ég og Anton Ari. Þetta var frekar einfalt mark, hár bolti í gegnum vörnina, sem á ekki að gerast. En það verður hægt að læra af þessu og þetta er líklega munurinn á liðunum þótt mér finnist við eiga fullt erindi gegn þessu liði, miðað við leikinn í kvöld. En það er að sjálfsögðu gæðamunur á deildunum hér og í Belgíu," sagði Damir.

Blikar hafa nú tapað þremur af fjórum leikjum sínum í keppninni með eins marks mun og Damir kvaðst ekki hafa trú á öðru en að gæfan hlyti að fara að verða þeim hliðholl.

„Þetta hlýtur að fara að detta með okkur. Við höfum alla vega fulla trú á því að við getum tekið sex stig úr þessum tveimur leikjum sem eru eftir. Sérstaklega í heimaleiknum á móti Maccabi ef við náum að sýna sömu frammistöðu og í kvöld," sagði Damir.

Blikar eiga enn eftir um fimm vikur af tímabilin en þeir mæta Maccabi Tel Aviv á Laugardalsvelllinum 30. nóvember og Zorya í Póllandi 14. desember. Damir kvaðst vera mjög ánægður með það.

„Það að spila í þessari riðlakeppni er eitthvað það skemmtilegasta sem ég hef gert og ég væri því til í að upplifa þetta aftur á næsta ári. Við fáum þá bara aðeins lengra frí þegar þessu er lokið, síðan tekur við átta vikna undirbúningstímabil. Það er miklu betra en að vera að fara inn í fimm mánaða undirbúning," sagði miðvörðurinn sterki.

Hiti var við frostmark í kvöld og Laugardalsvöllurinn því harður. „Hann var aðeins frosinn en það þýðir ekkert að væla yfir vellinum. Starfsfólkið hérna hefur verið í fullu starfi við að halda honum góðum og hefur gert sitt besta. Hann var þokkalega sléttur þó hann væri frosinn og það var alveg hægt að spila fótbolta eins og við sýndum í kvöld," sagði Damir Muminovic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert