Þetta snýst allt um réttu blönduna

Alfreð Finnbogason á æfingu íslenska liðsins í Búdapest í gær.
Alfreð Finnbogason á æfingu íslenska liðsins í Búdapest í gær. mbl.is/Víðir Sigurðsson

„Ég held að ég komi rólegur inn í þetta verkefni því ég veit hvað bíður mín,“ sagði Alfreð Finnbogason, aldursforsetinn í íslenska landsliðshópnum í knattspyrnu, við Morgunblaðið eftir æfingu liðsins í Búdapest í gærkvöld.

Þar kom liðið saman fyrir leikinn mikilvæga gegn Ísrael sem fer fram á Szousa Ferenc-leikvanginum í Újpest-hverfinu á fimmtudagskvöldið. Reyndar voru aðeins ellefu leikmenn af 24 á æfingunni en hinir þrettán voru í léttri „endurheimt“ eftir leiki helgarinnar með félagsliðum sínum í þreksal hótelsins.

Alfreð hefur leikið með landsliðinu frá 2010, er fjórði markahæsti landsliðsmaður sögunnar með 18 mörk í 73 landsleikjum, og hefur því mikla reynslu af þýðingarmiklum landsleikjum.

„Frá því Lars og Heimir tóku við landsliðinu fórum við í umspil um HM 2014, fórum á EM 2016 og HM 2018 og síðan í umspil fyrir EM 2020. Það er því bara eitt stórmót af síðustu fimm til sex sem við höfum ekki verið nálægt því að fara á og það setur ákveðinn standard fyrir íslenska landsliðið.

Maður telur sig vera heppinn að hafa verið uppi sem leikmaður á þeim tíma sem Ísland er í þessari stöðu. Það er ekkert sjálfsagður hlutur að Ísland berjist um að komast á stórmót, og núna finnur maður aðeins fyrir því að vera allt í einu orðinn elstur í hópnum. Þetta er fljótt að breytast!“

Reyni að miðla reynslunni

„En það er margt jákvætt við það, maður hefur reynsluna af því að upplifa bæði góða og erfiða tíma með liðinu og ég reyni að miðla því áfram ásamt því að nýta hana sjálfur í aðdraganda leiksins og vonandi þegar ég kem inn á völlinn.

Það er enn ákveðinn kjarni í hópnum sem hefur upplifað þessa tíma, ásamt því að margir ungir og efnilegir hafa bæst við. Þetta snýst allt um réttu blönduna. Þú vilt hafa hungraða stráka sem vita ekki ennþá hversu alvarlegt þetta er og svo viltu hafa nokkra sem hafa gert allt áður. Ég held að við höfum þessa blöndu í hópnum og er mjög bjartsýnn á þennan leik,“ sagði Alfreð.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert