Ég hef alltaf verið gömul sál

Hjörtur Hermannsson og Åge Hareide landsliðsþjálfari ræða málin fyrir æfingu …
Hjörtur Hermannsson og Åge Hareide landsliðsþjálfari ræða málin fyrir æfingu landsliðsins í Búdapest í gær. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Ég er þarna einhvers staðar á milli, hef brúað bilið á milli kynslóðanna eins og oft er sagt í fótboltanum,“ sagði Hjörtur Hermannsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, við mbl.is á hóteli landsliðsins í Búdapest í gær.

Hjörtur býr sig eins og aðrir landsliðsmenn Íslands undir umspilsleikinn mikilvæga gegn Ísrael sem fram fer í Búdapest annað kvöld.

Hann er 29 ára gamall og hefur reynslu af því að spila með eldri landsliðsmönnum sem gerðu það gott á EM og HM. Hjörtur hefur spilað 27 landsleiki frá árinu 2016 og mun oftar verið í leikmannahópnum.

„Þetta er búin að vera mikil breyting á liðinu síðustu árin og það hefur verið gaman að sjá ferska stráka koma inn, og frábært að hafa þessa „gömlu“ með.

Það er ekkert erfitt fyrir mig að vera orðinn einn af þeim eldri, ég hef alltaf verið gömul sál þannig að það hefur lítið breyst. En auðvitað hefur maður sankað að sér reynslu í gegnum árin og lært heilmikið af bæði landsliðsmönnum og svo annars staðar á mínum ferli, þannig að maður hefur eitthvað að miðla. En það er fyrst og fremst gaman að vera í þessum hópi,“ sagði Hjörtur.

Öðruvísi blanda en virkar vel

Er þetta ekki allt öðruvísi samsetning á hópnum nú en þú áttir að venjast fyrr á landsliðsferlinum?

„Jú, algjörlega. Það er breiðara bil á milli manna. Við vorum með nánast sama hópinn í mörg ár og það voru litlar breytingar. Nú hefur verið meiri rótering á hópnum en um leið hafa yngri strákar fest sig í sessi og gert það vel. Þetta er öðruvísi blanda en hún virkar vel.

Í undankeppninni á síðasta ári komu inn margir ungir og ferskir strákar sem eru að gera hrikalega vel með sínum félagsliðum og hafa gert tilkall til þess að vera í landsliðinu,“ sagði varnarmaðurinn.

Ég er miðvörður út í gegn

Hjörtur lék sem miðvörður gegn Bosníu og Portúgal í undankeppni EM síðasta haust en hefur áður leikið stöðu bakvarðar með landsliðinu. Spurningunni um hvor staðan henti betur var fljótsvarað.

„Ég fer ekkert leynt með það að ég er miðvörður út í gegn en þó með þá eiginleika að ég get brugðið mér í mismunandi stöður í varnarleiknum. Mér líður ekkert illa í bakvarðarstöðunni en er mikið meira heima hjá mér sem miðvörður.“

Hjörtur og Sverrir Ingi Ingason náðu vel saman sem miðverðir gegn Bosníu og Portúgal. Hjörtur kvaðst ekki vita enn þá hvert sitt hlutverk yrði gegn Ísrael en vonaðist að sjálfsögðu eftir því að vera í byrjunarliðinu á fimmtudagskvöldið.

„Það er alltaf gott að spila með Sverri, og eins og allir knattspyrnumenn þá geri ég mér alltaf vonir um að spila næsta leik. Ef það gerist ekki veit ég að þetta er í góðum höndum því þetta er góður og breiður hópur. Við erum að fara í úrslitaleik og ég er vongóður hvað okkar möguleika varðar.

Tveir leikir til að komast á stórmót

Ég held að það tækju allir því boði að fá tvo leiki til að komast á stórmót þannig að við erum ekki langt frá því. Við leggjum því mikið í leikinn, það er búið að stúdera andstæðinginn vel og vinna í þeim styrkleikum sem við búum yfir. Við höfum oft leikið vel og einnig spilað leiki sem við getum lært mikið af, og vonandi getum við tekið þann meðbyr með okkur inn í þennan leik.“

Þekkirðu mikið til ísraelska liðsins eða leikmannanna?

„Nei, ég get ekki sagt það. Mín eina reynsla af leik gegn Ísrael er með U17-ára landsliðinu þannig að það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá. En ég hef spilað með einum sem hefur verið inn og út úr hópnum hjá þeim, og svo voru þessir leikir gegn þeim í Þjóðadeildinni.

Þetta eru hörkuleikmenn og frábært lið sem við erum að fara að mæta. Þetta er úrslitaleikur, við erum í flottu formi og þetta verður hörkuleikur,“ sagði Hjörtur Hermannsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert