Í skýjunum með frammistöðuna

Jón Gísli Eyland Gíslason Skagamaður reynir að fara fram hjá …
Jón Gísli Eyland Gíslason Skagamaður reynir að fara fram hjá Tuma Þorvarssyni HK-ingi í Kórnum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Jón Þór Hauksson, þjálfari Skagamanna, kvaðst vera í skýjunum með frammistöðu liðsins gegn HK í dag þegar það vann stórsigur í Kórnum, 4:0, í annarri umferð Bestu deild karla í fótbolta.

Skagamenn skoruðu fjögur mörk í síðari hálfleiknum, eftir að HK missti Þorstein Aron Antonsson af velli með rautt spjald rétt fyrir hlé.

„Ég er ánægður með hvernig við nýttum liðsmuninn og svo er þetta mjög erfiður útivöllur, hann hefur verið okkur það undanfarin ár. Það er mjög erfitt að koma hingað í Kórinn og ná í þrjú stig þannig að ég er í skýjunum með frammistöðu minna manna,“ sagði Jón Þór við mbl.is eftir leikinn.

„Mér fannst við flottir í fyrri hálfleik en við vildum skerpa aðeins á okkar leik fyrir seinni hálfleikinn, ná hraðara spili og færa boltann hraðar til að komast í betri sóknarstöður. Það fannst mér strákarnir gera frábærlega í síðari hálfleik.“

Þið þurftuð mark sem fyrst í seinni hálfleik til að brjóta þá, og þínir menn voru ekki lengi að því?

„Já, þeir gerðu það virkilega vel og útfærðu frábærlega það sem við ræddum um í hálfleiknum. Viktor var auðvitað algjörlega frábær í vítateignum og menn kláruðu færin sín vel í seinni hálfleiknum. Eins töluðum við í hálfleiknum um að útfæra okkar fyrirgjafastöður aðeins öðruvísi og það heppnaðist frábærlega líka.“

Gefur þetta ykkur ekki heilmikið fyrir framhaldið?

„Jú, við erum komnir með fyrstu mörkin í deildinni, fyrsta sigurinn, héldum hreinu, með frábæra frammistöðu hjá markmanni og varnarlínu, þannig að við tikkuðum í mörg box í dag.“

Mjög ánægðir með hópinn

Áttu von á að gera einhverjar breytingar á hópnum áður en lokað verður fyrir félagaskiptin 26. apríl?

„Nei, ég á ekki von á því. Við erum mjög ánægðir með hópinn okkar og þá leikmenn sem við höfum, hvernig hann er uppbyggður. Við höfum unnið markvisst í því undanfarin tvö ár að gera það eftir okkar höfði og erum ánægðir með hvernig hefur tekist til.

Það er nokkuð langt síðan við lokuðum hópnum. Við erum ekki að leita að neinum leikmönnum, en ef eitthvað óvænt kemur upp þá skoðum við það og erum í aðstöðu til að gera það,“ sagði Jón Þór Hauksson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert