Breiðablik, Valur eða Fram í öðru sæti?

Jason Daði Svanþórsson og Helgi Fróði Ingason mætast í kvöld …
Jason Daði Svanþórsson og Helgi Fróði Ingason mætast í kvöld þegar Breiðablik tekur á móti Stjörnunni mbl.is/Óttar Geirsson

Þrír síðari leikirnir í sjöundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta fara fram í kvöld en þar munu þrjú, jafnvel fjögur lið gera tilkall til annars sætis deildarinnar.

Blikar standa þar best að vígi en þeir eru í öðru sætinu með 12 stig, sex stigum á eftir Víkingi sem vann Vestra 4:1 í gær og er með 18 stig eftir sjö leiki.

Blikar fá Stjörnuna í heimsókn á Kópavogsvöll klukkan 19.15 en Stjarnan er í sjöunda sæti með 10 stig. Ef öll úrslit falla með Garðbæingum í kvöld gætu þeir verið í öðru sæti eftir sjöundu umferðina með sigri í kvöld.

Valsmenn eru með 11 stig í fjórða sætinu og heimsækja HK í Kórinn klukkan 19.15. Ef Blikar vinna ekki Stjörnuna geta þeir verið komnir í annað sætið með sigri. HK er í níunda sæti deildarinnar með 7 stig og hefur unnið Víking og KR í tveimur síðustu leikjum.

Fram er með 11 stig í fimmta sætinu og fær Skagamenn í heimsókn í Úlfarsárdal klukkan 19.15. Vinni Framarar eiga þeir möguleika á að komast í annað sætið, þ.e. ef Blikar og Valsmenn vinna ekki, eða Framarar vinni stærri sigur en Valsmenn. ÍA er í áttunda sætinu með 9 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert