Fjörugt jafntefli í Úlfarsárdal

Harður slagur í vítateig Skagamanna í kvöld.
Harður slagur í vítateig Skagamanna í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Fram og nýliðar ÍA gerðu jafntefli, 1:1, þegar liðin áttust við í 7. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Framvelli í Úlfarsárdal í kvöld. Mesta furða var að mörkin urðu ekki fleiri miðað við fjölda góðra færa en niðurstaðan var að lokum sanngjörn.

Eftir jafnteflið er Fram í fjórða sæti deildarinnar með 12 stig og ÍA fer upp í sjötta sæti þar sem liðið er með tíu stig

Eftir að leikurinn hafði farið einkar rólega af stað færðist heldur betur fjör í leikana þegar fyrsta færi leiksins leit dagsins ljós á 11. mínútu.

Hinrik Harðarson slapp þá aleinn í gegn þegar rangstöðugildra Fram klikkaði illa, hann lék með boltann inn í vítateig, tók skotið hægra megin úr teignum en nokkurn veginn beint á Ólaf Íshólm Ólafsson í marki Fram sem varði.

Tíu mínútum síðar fékk Magnús Þórðarson dauðafæri í liði Fram. Guðmundur Magnússon sendi þá boltann til hægri á Tryggva Snæ Geirsson, sem renndi boltanum fyrir á Magnús og hann reyndi að vippa yfir Árna Marinó Einarsson í marki ÍA en hafnaði boltann ofan á þverslánni og fór svo aftur fyrir markið.

Eftir tæplega hálftíma leik barst boltinn til Olivers Stefánssonar, miðvarðar ÍA, hægra megin við markteig í kjölfar hornspyrnu, hann náði skoti á lofti en það fór yfir markið.

Skömmu síðar, á 33. mínútu, fékk Marko Vardic, miðvörður ÍA,  opið skallafæri eftir hornspyrnu Johannes Valls frá hægri en skallaði yfir markið vinstra megin við markteiginn.

Í næstu sókn átti Fred Saraiva góða fyrirgjöf af vinstri kantinum hinu megin, beint á kollinn á Guðmundi en hann skallaði yfir af stuttu færi.

Ógrynni færa

Ekki leið á löngu þar til Vardic fékk annað skallafæri og það eftir nákvæmlega sömu uppskrift og þremur mínútum áður; Vall tók hornspyrnu frá hægri, Vardic náði skallanum vinstra megin við markteiginn en að þessu sinni náði Már Ægisson að hreinsa hann frá rétt fyrir framan marklínuna.

Hvorugt liðið var eitthvað á því að slaka á og átti Rúnar Már Sigurjónsson hörkuskot rétt fyrir utan vítateig á 39. mínútu eftir góða sókn Skagamanna en Ólafur gerði vel í að verja skotið sem stefndi niður í markhornið.

Magnús gerði sig aftur líklegan í vítateig Skagamanna tveimur mínútum síðar þegar viðstöðulaust skot hans á lofti vinstra megin við markteiginn fór naumlega framhjá eftir fyrirgjöf Más af hægri kantinum.

Undir lok fyrri hálfleiks fengu liðin svo sitt hvort færið.

Fyrst gerði Vardic sig sekan um slæm mistök þegar sending hans fór beint til Guðmundar, hann kom boltanum á Tryggva Snæ sem renndi honum jafnharðan út á Guðmund sem skaut yfir úr kjörstöðu fyrir miðjum vítateignum.

Undir blálokin átti Vall svo afar lúmskt skot mjög utarlega vinstra megin í vítateig Fram sem hafnaði í nærstönginni þaðan sem boltinn rúllaði til hliðar rétt fyrir framan marklínuna áður en Framarar hreinsuðu frá og flautað var til leikhlés.

Staðan því, þótt ótrúlegt mætti virðast, markalaus í hálfleik.

Framarar hófu síðari hálfleikinn af feikna krafti þar sem Guðmundur fékk dauðafæri eftir aðeins þriggja mínútna leik.

Magnús slapp þá í gegn hægra megin þegar Vardic spilaði hann réttstæðan, renndi boltanum þvert fyrir markið á Guðmund sem tók viðstöðulaust skot úr sannkölluðu dauðafæri en Árni Marinó varði með fótunum.

Framarar héldu boltanum og reyndi Haraldur Einar Ásgrímsson lúmska vippu úr þröngu færi vinstra megin í vítateignum en hafnaði boltinn í þverslánni áður en Skagamenn hreinsuðu frá.

Eftir klukkutíma leik átti varamaðurinn Ingi Þór Jónsson góða fyrirgjöf á Viktor sem náði skallanum af stuttu en þröngu færi, þurfti aðeins að teygja sig í boltann og skallinn fór yfir markið.

Ísinn loks brotinn

Mínútu síðar komst Fred nálægt því að skora. Magnús gerði þá mjög vel í að leika á varnarmann ÍA hægra megin í vítateignum, náði góðu skoti sem fór af einum Skagamanni og svo öðrum, Fred reyndi að teygja sig í boltann í markteignum en skotið rétt framhjá.

Ekkert lát var á færunum og fékk Viktor annað skallafæri stuttu síðar þegar hornspyrna Valls frá hægri hafnaði á kollinum á Viktori á fjærstönginni en skallinn af stuttu færi fór í þverslána og yfir.

Á 65. mínútu tókst Frömurum loks að brjóta ísinn. Magnús var þá fljótur að hugsa og tók innkast snögglega á vinstri kantinum, fann þar Fred sem lék með boltann í átt að endalínu, renndi boltanum þvert fyrir markið á Guðmund sem skoraði með vinstri fótar skoti af örstuttu færi.

Átta mínútum síðar var Oliver nálægt því að skora sjálfsmark og tvöfalda þannig forystu Framara en skalli hans eftir sendingu varamannsins Alex Freys Elíssonar fyrir markið var varinn yfir markið af Árna Marinó.

Á 76. mínútu  jafnaði ÍA metin. Þar var að verki Viktor með sínu sjöunda deildarmarki í sjöunda leiknum. Varamaðurinn Guðfinnur Þór Leósson átti þá hnitmiðaða fyrirgjöf af hægri kantinum, Viktor beið átekta á fjærstönginni og skallaði boltann laglega niður í bláhornið.

Eftir jöfnunarmarkið róaðist leikurinn nokkuð. Í blálokin fengu liðin hins vegar sitt hvort dauðafærið.

Steinar Þorsteinsson átti skalla af örstuttu færi á þriðju mínútu uppbótartíma eftir mikinn darraðardans í vítateig Fram en hann var laus og hafnaði í fanginu á Ólafi.

Í síðustu sókn leiksins komst Alex Freyr í álitlega fyrirgjafastöðu hægra megin, renndi boltanum þvert fyrir markið á hinn 15 ára gamla varamann, Viktor Bjarka Daðason, sem náði skoti af markteignum en Árni Marinó varði frábærlega með fótunum.

Í þann mund var flautað til leiksloka.

Fram 1:1 ÍA opna loka
90. mín. Steinar Þorsteinsson (ÍA) fær gult spjald +1 Fyrir brot áðan þar sem hagnaði var beitt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert