Fyrirliðinn framlengdi hjá Val

Hólmar Örn Eyjólfsson í leik með Val.
Hólmar Örn Eyjólfsson í leik með Val. mbl.is/Eyþór Árnason

Knattspyrnumaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson, fyrirliði Valsmanna, hefur framlengt samning sinn við félagið til næstu tveggja ára.

Hólmar, sem er 33 ára gamall, kom til liðs við Val fyrir tímabilið 2022 og leikur því nú sitt þriðja ár með félaginu en hann var atvinnumaður frá 2008 til 2021 á Englandi, í Belgíu, Þýskalandi, Noregi, Ísrael og Búlgaríu.

Hann ólst upp hjá HK og lék 16-17 ára gamall með Kópavogsliðinu í efstu deild árin 2007 og 2008, áður en hann var seldur þaðan til West Ham á Englandi. Hólmar á samtals að baki 293 deildaleiki á ferlinum og þar af eru 68 í efstu deild hér á landi með Val og HK.

Þá lék hann 19 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim tvö mörk en dró sig í hlé frá landsliðinu árið 2020. Áður lék Hólmar 47 leiki með yngri landsliðum Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert