Jónatan hetja Vals í Kórnum

Jónatan Ingi Jónsson umkringdur af HK-ingum en hann skoraði bæði …
Jónatan Ingi Jónsson umkringdur af HK-ingum en hann skoraði bæði mörk Vals í kvöld. mbl.is/Eyþór

Valur gerði góða ferð í Kórinn og vann HK, 2:1, í 7. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld. Er Valur nú með þrjá sigra í röð og í þriðja sæti með 14 stig. HK er í níunda sæti með sjö stig.

Valur var meira með boltann í fyrri hálfleik en gekk illa að skapa sér eitthvað að ráði. Hinum megin nýttu HK-ingar hvert tækifæri til að sækja hratt og voru beinskeyttir. 

Atli Arnarson komst nálægt því að skora fyrsta mark leiksins fyrir HK en Frederik Schram í marki Vals varði vel skalla hans af stuttu færi. Nokkrum andartökum síðar átti hann hættulegt skot utan teigs en rétt framhjá.

Sigurður Egill Lárusson fékk fyrsta færi Vals á 25. mínútu en hann skaut viðstöðulaust úr teignum en rétt framhjá eftir sókn upp hægri kantinn. Hann var aftur á ferðinni á lokamínútu fyrri hálfleiks en þá varði Arnar Freyr Ólafsson vel frá honum og var því ekkert skorað í fyrri hálfleik.

Var staðan markalaus fram að 53. mínútu en þá komust gestirnir yfir. Jónatan Ingi Jónsson kláraði af öryggi úr teignum eftir sendingu frá Tryggva Hrafni Haraldssyni frá hægri. Var markið það fyrsta sem Jónatan skorar í deildinni fyrir Val.

Valsmenn voru líklegri til að bæta við en HK að jafna næstu mínútur og kom það því gegn gangi leiksins þegar Arnþór Ari Atlason skoraði stórfurðulegt mark á 64. mínútu.

Frederik Schram sparkaði þá fram en spyrnti boltanum beint í höfuðið á Arnþóri sem var um 20 metrum frá marki. Þaðan lak knötturinn inn áður en Hólmar Örn Eyjólfsson gat bjargað.

Jónatan var hins vegar aftur á ferðinni fyrir Valsmenn á 79. mínútu er hann kom þeim aftur yfir. Þá skoraði hann með hnitmiðuðu skoti utan teigs eftir að HK-ingar komu ekki boltanum almennilega í burtu eftir fyrirgjöf Lúkasar Loga Heimissonar.

Reyndist það sigurmarkið og Valsmenn fögnuðu þriðja sigrinum í röð.

HK 1:2 Valur opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbótartíma að þessu sinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert