Mun sennilega aldrei gera það aftur

Arnþór Ari fagnar skrautlegu marki sínu í kvöld.
Arnþór Ari fagnar skrautlegu marki sínu í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Arnþór Ari Atlason, markaskorari HK gegn Val í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld, var svekktur eftir leik þar sem HK mátti þola eins marks tap, 2:1.

„Mér fannst við sterkari en þeir í fyrri hálfleik, sköpuðum hættulegri færi og lokuðum á flest sem þeir reyndu að gera. Í seinni hálfleik taka þeir svolítið völdin og komast verðskuldað yfir.

Við náum síðan að jafna en eftir það vorum við svolítið týndir á vellinum og markið þeirra lá svolítið í loftinu. Þetta er líklegast sanngjarn sigur en pirrandi að nýta ekki fyrri hálfleikinn betur,“ sagði Arnþór við mbl.is eftir leik.

„Mér fannst augnablikið með okkur þegar við jöfnum og ég vildi að við myndum sækja annað markið og vinna, en þeir ná að þrýsta okkur alveg niður og enduðu á að skora,“ bætti hann við.

Arnþór skoraði mark HK með skalla af um 20 metra færi eftir að Frederik Schram í marki Vals spyrnti boltanum í höfuðið á honum og inn.

„Ég mun sennilega aldrei gera það aftur (að skora með skalla af 20 metra færi). Ég stýrði honum þokkalega. Ég var að reyna að vera fyrir og fá hann í mig en ég var með sterkan haus og háls og náði að stýra boltanum inn.“

HK hefur spilað mun betur í þremur síðustu leikjum en liðið gerði í allra fyrstu leikjum tímabilsins.

„Við erum komnir í betri takt og erum aggresívari. Þetta eru þrír fínir leikir í röð í deildinni og nú mætum við klárir í leik gegn Fylki. Þeir unnu okkur fyrir stuttu og nú ætlum við að vinna þá,“ sagði Arnþór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert