Var ekki alveg til staðar

Sindri Þór Ingimarsson fylgist með Óla Val Ómarssyni berjast við …
Sindri Þór Ingimarsson fylgist með Óla Val Ómarssyni berjast við í Færeyinginn Patrik Johannesen um boltann. mbl.is/Eyþór Árnason

Stjörnumaðurinn Sindri Þór Ingimarsson var að vonum svekktur er mbl.is talaði við hann eftir tap síns liðs fyrir Breiðabliki, 2:1, í 7. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

Stjarnan er í 8. sæti með tíu stig en þéttur pakki eru um miðja deild.

„Ég er svekktur. Það er skellur að fá á sig mark eftir fimm mínútur. Við fengum á okkur tvö mörk í fyrri hálfleik og skoruðum eitt sem var gott.

Í seinni hálfleik liggjum við á þeim, spilum vel upp kanta og reynum að ná góðum sendingum eða fyrirgjöf á fjær. Það var að virka en datt ekki, sem er pirrandi. 

Við komumst í fínar stöður. Sendingin þarf að vera góð og þétt og á réttum tíma. Það var ekki alveg til staðar í kvöld,“ sagði Sindri. 

Áfram gakk

Sindri segir þó liðið geta tekið jákvæða hluti með sér úr leiknum. 

„Við vorum að spila vel úr pressunni þeirra, komumst í frábær færi. Við gáfumst aldrei upp. Frammistaðan var góð í kvöld og það er áfram gakk.“ 

Sindri er hóflega sáttur við tímabil Stjörnunnar hingað til. Stjarnan er þá einnig komin í átta liða úrslit bikarsins þar sem liðið mætir Þór Akureyri fyrir norðan.

„Þetta er búinn að vera góður stígandi. Fyrstu tveir leikirnir voru ekki spes. Eftir það er þetta búið að vera mjög gott og við höldum áfram. Næsti leikur er gegn KA og við ætlum að sýna góða frammistöðu þar og halda áfram,“ bætti Sindri við. 

Sindri Þór Ingimarsson.
Sindri Þór Ingimarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert