Þriggja ára planið hjá Guðmundi

Guðmundur Guðmundsson var á forsíðu Sportveiðiblaðsins fyrir HM í janúar …
Guðmundur Guðmundsson var á forsíðu Sportveiðiblaðsins fyrir HM í janúar 2019. Þar ræddi hann um þriggja ára planið sitt fyrir landsliðið. Nú eru liðin þrjú ár frá því að viðtalið var tekið. Ljósmynd/Sportveiðiblaðið

Veiðiáhugamaðurinn Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari ræddi þriggja ára planið sitt fyrir Íslenska landsliðið í viðtali við Sportveiðiblaðið undir lok árs 2018. Þá var framundan HM sem fór fram bæði í Danmörku og Þýskalandi, í janúar 2019.

Þegar viðtalið við Guðmund var tekið hafði hann verið landsliðsþjálfari Íslands í tíu mánuði og hafði stjórnað hinu unga liði Íslands í sjö landsleikjum. Þarna var að hefjast þriðja tímabil Guðmundar með íslenska landsliðið og hann hafði landað bæði silfri á Ólympíuleikum og brosni á Evrópumóti. En nú blasti við honum nýtt landslag og nánast alveg nýtt landslið og það mjög ungt lið. Grípum niður í viðtalið.

„Ég get ekki séð að nokkurt lið hafi gengið í gegnum svona mikla endurnýjun. Helst mætti nefna að Svíþjóð nálgaðist það eftir að gullaldarliðið þeirra var endurnýjað. Það tók þá mjög langan tíma að koma til baka. Ekkert annað lið í dag er í þessari stöðu. Ekki eitt einasta. Þetta er bara það sem gerist. Margir frábærir leikmenn, sem voru búnir að vera mjög lengi í landsliðinu, eru hættir og það einkennir íslenska landsliðið að við erum mjög unga leikmenn í mörgum stöðum. Besta dæmið er leikstjórnandastaðan. Þeir eru sautján ára, átján ára og tuttugu og eins árs eins og staðan er í dag.“

Guðmundur Þ. Guðmundsson á hliðarlínunni ásamt Viggó Kristjánssyni og Sigvalda …
Guðmundur Þ. Guðmundsson á hliðarlínunni ásamt Viggó Kristjánssyni og Sigvalda Birni Guðjónssyni. Guðmundur var með eitt yngsta landslið sögunnar í höndunum þegar hann tók við í febrúar 2018. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Þeir eru þó allir komnir með bílpróf.

„Já, sá yngsti er nýkominn með próf. Þetta segir mjög mikið. Þetta er sóknarlega mjög mikilvæg staða. Og við erum enn fremur að endurnýja línumannsstöðuna. Við erum einnig með nýtt hjarta í vörninni og síðan eru ungir menn að banka á dyrnar í öllum stöðum. Þetta eru mjög miklar breytingar.“

Þessir strákar líta vel út. Komu þeir þér á óvart í síðasta leik, á erfiðum útivelli í Tyrklandi, þar sem þeir unnu sannfærandi sigur á heimamönnum?

„Já, það má segja það. Ég er búinn að spila með þeim sjö leiki og þessir síðustu leikir gefa mjög góð fyrirheit en við erum að fara að spila við bestu landslið heims eftir nokkrar vikur. Ég ætla ekki að setja óraunhæfa pressu eða væntingar á liðið okkar. Ég horfi hins vegar til þess að við getum komist á ólympíuleikana 2024.“

Þegar þú kemur núna heim þá langar mig að vita hvort að það kunni að leynast einhver draumur í undirmeðvitundinni með íslenska landsliðið?

„Þetta er svolítið öðruvísi. Núna á ég mér draum með þetta landslið og það er að byggja upp lið í fremstu röð. Og þegar maður segir það á ég við að íslenska landsliðið verði á meðal topp átta liða í heiminum.“

Guðmundur Þórður Guðmundsson gerði Dani að Ólympíumeisturum. Hér er Gullmundur …
Guðmundur Þórður Guðmundsson gerði Dani að Ólympíumeisturum. Hér er Gullmundur eins og Danir kölluðu hann eftir Ólympíusigurinn að leggja mönnum línurnar. EPA

Þú ert að tala um lið sem er að fara að keppa um verðlaun á stórmótum?

„Já og ef þú ert kominn í átta liða úrslit og vinnur þar, ertu farinn að keppa um verðlaun. Við náðum þessum bæði 2008 og 2010, tvær stórkeppnir í röð. Ég er í raun að horfa til þessa en þetta tekur tíma. Við erum ekki tilbúnir í dag. Við verðum það vonandi eftir þrjú ár.“

Þetta voru markmið og metnaður Guðmundar fyrir þremur árum í viðtali við Sportveiðiblaðið. Nú er Íslands komið í milliriðil eftir að hafa sigrað í þremur fyrstu leikjum sínum á mótinu. Framundan er hins vegar alvöru danskt fjall sem þarf að klífa. Danir vita tvennt í þessari stöðu. Íslendingar elska að gera þeim skráveifu og svo náttúrulega hitt að hæsta fjall Danmerkur er ekki nema 147 metrar á hæð.

Ísland hafnaði í 14 sæti á EM 2019, en Danir lönduðu sínum fyrsta heimsmeistaratitli og unnu alla tíu leiki sína á mótinu. Til að kóróna frábæra frammistöðu rassskelltu þeir Norðmenn í úrslitaleik mótsins 31 - 22. Danir voru á þeim tíma ríkjandi Ólympíumeistarar frá leikunum 2016 í Ríó í Brasilíu. Þá var þjálfari Dana Guðmundur Guðmundsson, sem fékk í framhaldinu viðurnefnið Gullmundur, eða Gullmund upp á dönsku. Danir lögðu ógnarsterkt lið Frakka í úrslitaleiknum.

Í kvöld mætast svo Ísland og Danmörk í fyrsta leik í milliriðli. Leikurinn hefst klukkan 19:30.

mbl.is