Holland vann í fjarveru Erlings

Kay Smits fór einu sinni sem áður á kostum í …
Kay Smits fór einu sinni sem áður á kostum í liði Hollands. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Holland vann sterkan 34:30 sigur á Svartfjallalandi í milliriðli 1, riðli Íslands, á EM 2022 í handknattleik karla í Ungverjalandi og Slóvakíu í dag.

Holland var án Erlings Richardssonar aðalþjálfara síns eftir að hann greindist með kórónuveiruna fyrr í dag.

Svartfellingar byrjuðu betur í leiknum í dag og voru með forystu, mest þriggja marka, stærstan hluta fyrri hálfleiks.

Eftir að hafa komist í 8:11 skoruðu Hollendingar næstu þrjú mörk og komu sér vel inn í leikinn.

Svartfjallaland komst í 12:13 en aftur skoraði Holland þrjú mörk í röð og náði forystunni í fyrsta skipti í leiknum.

Héldu Hollendingar henni og voru tveimur mörkum yfir, 18:16, í hálfleik.

Í síðari hálfleik tókst Hollandi svo að halda forystunni allan tímann, þó Svartfjallaland hafi nokkrum sinnum náð að minnka muninn niður í eitt mark.

Mest náði Holland fimm marka forystu, 30:25, en sigldi að lokum góðum fjögurra marka sigri í höfn.

Holland er þar með komið á blað í milliriðlinum og er nú með 2 stig líkt og Ísland og Svartfjallaland.

Kay Smits hélt uppteknum hætti og raðaði inn mörkum fyrir Holland í dag. Skoraði hann alls níu mörk.

Thijs van Leeuwen lék þá vel í marki Hollendinga. Varði hann 14 skot og var með rúmlega 42 prósent markvörslu.

Markahæstir í liði Svartfjallalands voru Radojica Cepic og Branko Vujovic, báðir með sex mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert