Danir ætla hvíla lykilmenn gegn Frökkum

Mikkel Hansen er lykilmaður í liði Dana.
Mikkel Hansen er lykilmaður í liði Dana. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska karlalandsliðsins í handknattleik, ætlar sér að hvíla stærstu stjörnur liðsins á morgun þegar liðið mætir Frakklandi í lokaleik sínum í milliriðli I í Búdapest á Evrópumótinu sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu.

Þetta tilkynnti hann í viðtali við danska miðilinn Jyllands-Posten eftir öruggan sigur Danmerkur gegn Hollandi í milliriðli I í Búdapest í gær.

Danir lögðu Hollendinga með tólf marka mun, 35:23, og eru komnir áfram í undanúrslit keppninnar á meðan Frakkar eru með 6 stig í öðru sæti riðilsins, tveimur stigum meira en Ísland, en Ísland þarf að treysta á að Danir vinni Frakka til þess að eiga möguleika á sæti í undanúrslitum.

„Auðvitað munum við gera okkar allra besta á miðvikudaginn kemur gegn Frökkum,“ sagði Jacobsen.

„Okkar stærsta markmið er hins vegar að vera með ferska leikmenn á föstudaginn þegar undanúrslitin fara fram. Það er okkar mikilvægasti leikur í mótinu núna.

Ég mun hvíla lykilmenn á miðvikudaginn, það er klárt mál, en hverjir verða hvíldir á eftir að koma í ljós. Við tökum stöðuna á miðvikudaginn og skoðum hverjir þurfa á hvíld að halda,“ bætti Jacobsen við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert