Fyrstu smitin í norska landsliðinu

Magnus Gullerud er kominn í einangrun með kórónuveiruna og spilar …
Magnus Gullerud er kominn í einangrun með kórónuveiruna og spilar ekki gegn Íslandi á morgun. AFP

Tvö fyrstu kórónuveirusmitin eru komin upp í röðum Norðmanna á Evrópumótinu í handknattleik í Búdapest og tveir leikmenn verða því ekki með gegn Íslandi í leiknum um fimmta sætið á morgun.

Markvörðurinn Torbjörn Bergerud, leikmaður GOG í Danmörku, og Magnus Gullerud, leikmaður Magdeburg í Þýskalandi, greindust með veiruna í dag og læknir liðsins, Thomas Torgalsen, segir við TV2 í Noregi að þeir séu þar með úr leik á morgun. Læknirinn kveðst óttast að fleiri jákvæð smit verði greind í leikmannahópnum á næsta sólarhringnum.

Gullerud hefur leikið alla sjö leiki Norðmanna á EM og skorað 17 mörk. Bergerud hefur leikið sex leiki af sjö og hefur varið 36 skot, og verið með 33,33% markvörslu.

Þetta eru einmitt tveir af þeim leikmönnum sem ganga í sumar til liðs við nýja stórveldið í norska handboltanum, Kolstad, ásamt m.a. íslensku landsliðsmönnunum Janusi Daða Smárasyni og Sigvalda Birni Guðjónssyni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert