Erfitt að útskýra hvað gerist

Snorri Steinn vonsvikinn í dag.
Snorri Steinn vonsvikinn í dag. AFP/Ina Fassbender

„Mér líður eins og við höfum tapað leiknum,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, í samtali við mbl.is eftir 26:24-sigur á Austurríki í lokaleik Íslands á EM í dag.

Ísland hefði þurft fimm marka sigur með að fara langt með að tryggja sér sæti í undankeppni Ólympíuleikanna. Þess í stað verður íslenska liðið að treysta á að Frakkar vinni ekki Ungverja í leik sem hefst klukkan 17. Ísland var með 14:8 forskot í hálfleik en slæm byrjun í seinni hálfleik varð liðinu að falli.

„Við vorum í góðum málum og með þetta eins og við vildum hafa það. Við vorum að spila vel en svo komum við mjög flatir inn í seinni hálfleikinn. Það er erfitt að útskýra hvað gerist þar. Það var dapurt.

Snorri Steinn ræðir við sína menn í dag.
Snorri Steinn ræðir við sína menn í dag. AFP/Ina Fassbender.

Færanýtingin var ekki góð og markvörðurinn góður hinum megin. Það er ekki góð blanda. Við vorum ekki nógu góðir. Það hefur vantað upp á. Það er stutt á milli í þessu. Við þurfum einn sigur í viðbót og stundum er þetta þannig. Það er stutt á milli ef þú vilt ná árangri,“ sagði hann.

Þó er ekki öll nótt úti enn. Frakkar eru búnir að tryggja sér sæti í undanúrslitum og þurfa ekki á sigri að halda gegn Ungverjum sem geta enn komist í undanúrslit.

„Við getum vonað en akkúrat núna er ég vonsvikinn. Við gerðum fullt af hlutum sem átti að duga til að vinna með fimm. Með eðlilegri færanýtingu hefði þetta gengið upp,“ sagði Snorri.

Hann vildi ekki ræða mikið um furðulega dóma hjá svartfellska dómaraparinu í dag. „Ég ætla ekki að kenna því um. Það er mikið í húfi og menn voru hátt uppi. Dómararnir eru ekki ástæðan fyrir að þetta fór svona,“ sagði Snorri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert