„Svíður sárt að sjá Liverpool í titilbaráttu“

Luis Suárez og Daniel Sturridge hafa verið iðnir við að …
Luis Suárez og Daniel Sturridge hafa verið iðnir við að skora mörk á tímabilinu. AFP

Wayne Rooney framherji Manchester United segir að það svíði sárt að erkifjendurnir í Liverpool séu í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn á meðan möguleikar United á að verja titilinn eru nánast úr sögunni.

Liverpool er í öðru sæti deildarinnar, sjö stigum á eftir toppliði Chelsea en á leik til góða. United er hins vegar í sjötta sæti og á það á hættu að komast ekki í Meistaradeildina á næstu leiktíð.

Spennan er að magnast fyrir slag erkifjendanna en United tekur á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

„Að sjá Manchester City standa sig vel og sérstaklega Liverpool er afar erfitt,“ segir Rooney í viðtali við tímaritið Inside United.

„Það er ekki gott þegar þú veist að við erum ekki færir um að berjast um titilinn og við höfum ekki gert það á þessu tímabili. Hins vegar þýðir þetta það að við verðum að rífa okkur upp og koma okkur í toppbaráttuna því tilfinningin sem höfum haft á þessu tímabili hefur ekki verið góð. Við verðum að enda tímabilið vel,“ segir Rooney.

Manchester United varð enskur meistari í 20. sinn á síðustu leiktíð en liðið endaði 11 stigum á undan liðinu í öðru sæti. Tímabilið í ár undir stjórn Davids Moyes hefur hins vegar reynst Manchester-liðinu ákaflega erfitt.

„Það eru margir leikmenn og liðið sjálft sem hefur ekki verið nógu gott á tímabilinu. Við verðum að hafa það á hreinu. Eftir að sir Alex hafði verið við stjórnvölinn í 26 ár var vitað mál að það yrðu breytingar en ég held að leikmenn hefðu þurft að gera betur. Vonandi tekst okkur að enda á meðal fjögurra efstu, ef ekki þá komum við á fullum krafti inn í næsta tímabil.“

mbl.is