Njóttu C-deildarinnar og haltu þér saman

Steve Evans er litríkur knattspyrnustjóri Rotherham.
Steve Evans er litríkur knattspyrnustjóri Rotherham. Ljósmynd/themillers.co.uk

Steve Evans, knattspyrnustjóri Rotherham, liðsins sem Kári Árnason landsliðsmaður leikur með, skóf ekkert utan af hlutunum í gærkvöld eftir að lið hans hafði sigrað Reading, 2:1, og tryggt sér áframhaldandi sæti í ensku B-deildinni.

Í viðtali við BBC beindi hann orðum sínum til Lee Gregory, leikmanns Millwall, sem sagði fyrir leikinn að hann ætti von á því að Rotherham myndi fara á taugum og klúðra sínum leikjum.

„Njóttu þess að vera í C-deildinni og haltu þér svo saman," voru skilaboðin frá Evans til Gregory, en með sigri Rotherham féllu bæði Millwall og Wigan úr B-deildinni.

Rotherham kom upp síðasta vor, eftir að hafa leikið í D-deildinni fyrir tveimur árum og það er því stór áfangi fyrir Evans, Kára og  félaga að hafa haldið velli í vetur. Útlitið var orðið dökkt eftir að þrjú stig voru tekin af liðinu í síðustu viku fyrir að nota ólöglegan leikmann fyrr í vetur, en það kom ekki að sök.

„Þetta er besti árangur minn frá upphafi. Álagið hefur verið mikið og lítið um svefn að undanförnu. Þetta er búið að taka sinn toll. Þegar stig eru tekin af manni, er það mikið áfall, en við urðum að sýna styrk og karakter, og gerðum það. Þeir mega hirða stigin af okkur en þeir taka aldrei af okkur baráttuviljann og ástríðuna fyrir því að halda velli í þessari deild. Ég hef oft farið upp um deild og hef unnið úrslitaleik á Wembley, en fyrir mig er þetta besti árangurinn," sagði Evans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert