United sló Paris SG úr leik

Romelu Lukaku fagnar marki sínu í kvöld.
Romelu Lukaku fagnar marki sínu í kvöld. AFP

Manchester United sló í kvöld út franska meistaraliðið Paris SG þegar liðin áttust við í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

United fagnaði 3:1 sigri í París í kvöld. Liðin skildu jöfn 3:3 en Manchester-liðið fer áfram á útimarkareglunni. Það var Marcus Rashford sem skaut United áfram þegar hann skoraði þriðja markið úr vítaspyrnu undir lok leiksins. Diogo Dalot átti skot sem fór í hönd varnarmanns sem var innan vítateigs. Eftir að skoða atviki á myndbandi dæmdi dómari leiksins vítaspyrnu sem Rashford skoraði úr af miklu öryggi.

Romelu Lukaku kom Unied yfir strax á 3. mínútu eftir að hafa fengið boltann á silfurfati frá varnarmanni Paris SG. Heimamenn jöfnuðu með marki frá Juan Bernat á 12. mínútu en Lukaku kom United aftur yfir á 30. mínútu. Rashford átti skot sem Buffon varði en hann missti boltann frá sér og Lukaku náði frákastinu og skoraði.

Lítið var að gerast í seinni hálfleiknum en lokamínúturnar voru dramatískar. Það tók dómara leiksins nokkrar mínútur að kveða upp úrskurð þegar hann dæmdi vítaspyrnuna og hann bætti svo heilum sex mínútum við upphaflega þrjár mínútúrnar sem hann hafði bætt við. Parísarmenn gerðu örvætningafullar tilraunir til að skora annað markið en allt kom ekki fyrir ekki og vængbrotið lið Manchester United fagnaði fræknum sigri.

 

PSG 1:3 Man. Utd opna loka
90. mín. Marcus Rashford (Man. Utd) skorar úr víti +2 Þvílík dramtaík. Rashford skoraði af miklu öryggi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert