Skilur ekki af hverju Mkhitaryan mætti ekki

Henrikh Mkhitaryan er ekki með Arsenal í Bakú.
Henrikh Mkhitaryan er ekki með Arsenal í Bakú. AFP

Eins og fram hefur komið verður Henrikh Mkhitaryan ekki í leikmannahópi Arsenal í kvöld þegar liðið mætir Chelsea í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í Bakú í Aserbaídsjan.

Armenía og Aserbaídsjan hafa lengi átt í pólitískum deilum og ákvað Mkhitaryan að ferðast ekki til Bakú af ótta um öryggi sitt. Azad Rahimov, íþróttamálaráðherra Aserbaídsjan, segist ekki skilja hvers vegna Mkhitaryan hafi tekið þessa ákvörðun, en íþróttamenn frá Armeníu tóku til að mynda þátt á Evrópuleikunum í Bakú árið 2015:

„Þess vegna skil ég ekki ástæðuna fyrir því að hann sagði nei. Kannski var einhver pressa frá nágrannaríkjum okkar, en ég skil í alvörunni ekki hvernig staðan á að hafa breyst,“ sagði Rahimov við BBC.

„Þetta hefur alltaf verið svo auðvelt. Við sömdum við Armeníu, með bréfi frá íþróttamálaráðuneytinu, um að hverjum einasta íþróttamanni yrði tryggt öryggi. Við skiptumst á þessum bréfum og allt gekk fumlaust fyrir sig, en núna veit ég ekki hvort eitthvað hefur breyst hjá nýrri ríkisstjórn í Armeníu eða hvort þetta var bara ákvörðun þessa einstaklings og hans fjölskyldu. Það eru engin vandamál með þessa tryggingu um öryggi,“ sagði Rahimov.

Stuðningsmenn Arsenal og Chelsea hafa kvartað yfir þeirri staðreynd að úrslitaleikurinn skuli fara fram í Bakú og að þeir þurfi að fljúga 2.468 mílur frá London til að komast á leikinn, austast í Evrópu. „Hvað getum við gert? Við erum staðsett á þessu svæði í Evrópu og við getum ekki fært Bakú meira miðsvæðis,“ sagði Rahimov og tók undir orð Aleksanders Ceferin, forseta UEFA, um að fótboltinn eigi að fara sem víðast og að fólk í Aserbaídsjan eigi að geta notið þess að sjá fótboltaleiki á hæsta stigi rétt eins og aðrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert