Meistaratitillinn blasir við Manchester City

Enski meistaratitillinn í knattspyrnu blasir við Manchester City fjórða árið í röð eftir útisigur liðsins á Tottenham í London í kvöld, 2:0.

Erling Haaland skoraði bæði mörkin og City er nú með 88 stig gegn 86 stigum Arsenal fyrir lokaumferðina næsta sunnudag. City á þá heimaleik gegn West Ham og verður meistari með sigri, en að öðrum kosti getur Arsenal orðið meistari með því að sigra Everton á heimavelli.

Síðasti möguleiki Tottenham á að ná fjórða sætinu og komast í Meistaradeildina hvarf með ósigrinum í kvöld en liðið er í fimmta  sæti með 63 stig. Aston Villa er því fjórða lið Englands í keppninni næsta vetur, ásamt Manchester City, Arsenal og Liverpool.

Viðureignin fór rólega af stað. Tottenham var meira með boltann og pressaði City stíft um allan völl. Manchester City voru í meiri erfiðleikum með að halda í boltann en þeir eru vanir. Besta færi fyrri hálfleiksins fékk Phil Foden eftir misheppnaða hreinsun frá Pierre-Emile Höjberg en skot hans var frábærlega varið af Guglielmo Vicario í marki Tottenham. Staðan 0:0 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn byrjaði mun fjörlegar en sá fyrri. Bæði lið fengu ágætis færi til að komast yfir en það var síðan á 51. mínútu sem City komst yfir með marki frá Norðmanninum Erling Braut Haaland eftir sendingu frá De Bruyne, 1:0. Hans 26. mark á tímabilinu.

Á 62. mínútu leiksins lentu Christian Romero og Ederson í harkalegu samstuði og lá Ederson eftir óvígur í smá stund. Engir sénsar voru teknir varðandi höfuðmeiðsli og kom Stefan Ortega inn í stað Ederson í mark City.

Í lok leiksins reyndist varamarkmaðurinn, Stefan Ortega, hetja City. Akanji gerði sig sekan um hrikaleg mistök sem leiddi til þess að Son Heung-Min vann boltann og komst í gegn en Ortega sá við honum.

Á lokamínútu venjulegs leiktíma gerði varamaðurinn, Jeremy Doku, vel í einn á einn stöðu við Pedro Porro og nældi sér í víti fyrir Manchester City. Erling Braut Haaland fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Lokaniðurstöður í kvöld, 2:0 fyrir Manchester City.

Tottenham 0:2 Man. City opna loka
90. mín. Man. City fær víti Doku gerir frábærlega í einn á einn stöðu við Porro sem brýtur á honum. Tækifæri fyrir City til að klára þetta.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka