Lampard byrjaði á jafntefli

Frank Lampard tók við Chelsea í síðustu viku en hann …
Frank Lampard tók við Chelsea í síðustu viku en hann er af mörgum talinn einn allra besti leikmaðurinn í sögu félagsins. AFP

Enska knattspyrnuliðið Chelsea gerði jafntefli við írska liðið Bohemians í fyrsta leik sínum á undirbúningstímabilinu undir stjórn Franks Lampards í Dublin í kvöld en lokatölur urðu 1:1.

Michy Batshuayi varð fyrstur til að skora fyrir Lampard þegar hann kom Chelsea yfir í fyrri hálfleiknum. Lampard skipti alveg um lið í hálfleik, sendi þá aðra ellefu leikmenn inná völlinn, og þeir fengu á sig jöfnunarmark á 89. mínútu.

Lið Chelsea dvelur áfram í Dublin og mætir þar St. Patrick's Athletic á laugardaginn en í næstu viku er ferðinni heitið til Japan og leikið gegn Kawasaki Frontale föstudaginn 19. júlí og við Spánarmeistara Barcelona 23. júlí.

Fyrsti leikur Chelsea í ensku úrvalsdeildinni er gegn Manchester United á Old Trafford sunnudaginn 11. ágúst.

mbl.is